Markaðssetning lyfjafyrirtækja

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 14:19:53 (914)

2001-10-31 14:19:53# 127. lþ. 18.2 fundur 149. mál: #A markaðssetning lyfjafyrirtækja# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[14:19]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að hreyfa þessu máli en hún hefur beint þeirri fyrirspurn til heilbrrh. hvort til séu einhverjar reglur um markaðssetningu lyfjafyrirtækja fyrir lækna.

Því er til að svara að í lyfjalögum, nr. 93/1994, er kveðið á um auglýsingar og kynningar á lyfjum. Kemur þar glögglega fram á hvern hátt má auglýsa lyfseðilsskyld lyf fyrir heilbrigðisstéttum og lausasölulyf fyrir almenningi. Eftirlit með lyfjaauglýsingum er í lögum þessum falið Lyfjastofnun. Einnig er kveðið nánar á um afhendingu lyfjasýnishorna en þau má afhenda læknum persónulega gegn undirritaðri beiðni læknis.

Í reglugerð nr. 328/1995, um lyfjaauglýsingar, er nánar kveðið á um kröfur þær sem auglýsingum fyrir lyf er gert að uppfylla. Þar kemur einnig fram að óheimilt er að bjóða læknum og fleiri heilbrigðisstéttum gjafir, fé eða fríðindi nema um óveruleg verðmæti sé að ræða.

Umræða fór fram í dagblöðum fyrir nokkru um þessi mál og var tilefnið óvanaleg aðferð lyfjafyrirtækis til að vekja athygli á söluvöru sinni. Ég gat þess þá í viðtali við blaðamenn að ég treysti læknastéttinni til almennrar skynsemi og siðsemi og að láta ekki hafa áhrif á sig með þessum hætti. Markaðssetning af þessum toga yrði fremur til að gera lítið úr læknastéttinni en hitt. Ég stend fyllilega við þessi orð mín.

Hv. þm. spurði einnig hvort kannað hefði verið hvort boðsferðir lyfjafyrirtækja fyrir lækna hefðu áhrif á lyfjaverð og lyfjakostnað hins opinbera.

Kannanir af þessum toga hafa ekki verið gerðar hér á landi af hálfu heilbrigðisyfirvalda. Umfang þessara ferða virðist allnokkurt en ekki verður séð að þær séu á nokkurn hátt undanþegnar ákvæðum laga eða reglugerða ef auglýsing á lyfjum á sér stað í boðsferðum þessum.

Lyfjakostnaður hefur vaxið á Íslandi undanfarin ár og vegur sífellt þyngra í útgjöldum vegna heilbrigðismála. Kostnaður við markaðssetningu er verulegur hluti heildarkostnaðar vegna lyfja. Því tel ég mikilvægt að öll markaðssetning á lyfjum og tengdum vörum sé gerð á þann hátt að allir aðilar geti vel við unað, jafnt kaupendur lyfjanna sem seljendur þeirra.