Markaðssetning lyfjafyrirtækja

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 14:22:44 (915)

2001-10-31 14:22:44# 127. lþ. 18.2 fundur 149. mál: #A markaðssetning lyfjafyrirtækja# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., KF
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[14:22]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Öll fyrirtæki sem framleiða vörur koma framleiðslu sinni á framfæri við væntanlega viðskiptavini. Um lyfjafyrirtækin gegnir öðru máli þar sem þeim er ekki heimilt að auglýsa lyf á almennum markaði eða í fjölmiðlum. Það eru læknar sem ávísa lyfjum og velja hvaða lyf henta hverjum sjúklingi. Læknar þurfa að fá jafnharðan fréttir af nýjungum í lyfjaframleiðslu til að geta þekkt verkunarmáta lyfja og aukaverkanir þeirra. Eftirlit er að sjálfsögðu í höndum landlæknis og, eins og kom fram hjá ráðherra, hjá Lyfjastofnun. Auk þess setti Læknafélag Íslands ítarlegar siðareglur um samskipti lækna og lyfjafræðinga og hafa þær verið samþykktar þar.

Viðbrögð hæstv. ráðherra við umræddu máli sem kom hér upp á dögunum voru ágæt og mjög viðeigandi þegar hann sagði: Læknum er treystandi. Og þeim er treystandi.