Markaðssetning lyfjafyrirtækja

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 14:25:11 (917)

2001-10-31 14:25:11# 127. lþ. 18.2 fundur 149. mál: #A markaðssetning lyfjafyrirtækja# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[14:25]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim sem tóku þátt í þessari umræðu. Eftir hana er ég sannfærð um að gera þarf skýrar og gagnsæjar reglur um þessi mál.

Eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra fer lyfjakostnaður hins opinbera sívaxandi og sömuleiðis lyfjakostnaður sjúklinga. Þetta er orðið ríkinu mjög dýrt á meðan lyfjafyrirtækin mala gull. Auðvitað þurfum við að beita öllum tiltækum ráðum til að koma í veg fyrir sívaxandi kostnað, og einnig að auka siðferði í þessum málum.

Ég tek undir það að trúverðugleiki lækna er líka í húfi hvað þetta varðar. Hér talaði hv. þm., læknir, um að hægt væri að treysta læknum. Við skulum vona það. Engu að síður viðgangast svona mútuferðir eins og ég nefndi í máli mínu áðan. Ég tel því mikilvægt að stjórnvöld setji mjög strangar reglur til að koma í veg fyrir slíkt. Vissulega þarf að sjá til þess að læknum séu kynnt ný lyf, svo sannarlega tek ég undir það, en það þarf að setja skýrar og gagnsæjar reglur.

Ég vil geta þess hér að mörg stóru alþjóðalæknablöðin setja verulega fyrirvara við niðurstöður rannsókna þar sem styrkir frá lyfjafyrirtækjum koma til. Og læknar sem skrifa í slík blöð verða að geta þess hverjir hafa styrkt þá.

Niðurstaða mín eftir þessa umræðu er sú að það er nauðsynlegt að setja opinberar, skýrar reglur um samskipti lækna og lyfjafyrirtækja, hér alveg eins og í öðrum siðmenntuðum ríkjum.