Áfallahjálp

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 14:29:29 (919)

2001-10-31 14:29:29# 127. lþ. 18.3 fundur 166. mál: #A áfallahjálp# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[14:29]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Á undanförnum árum höfum við því miður lent í áföllum, m.a. í kjölfar náttúruhamfara, þar sem heilu byggðarlögin hafa orðið fyrir þannig áföllum að þörf hefur verið fyrir áfallahjálp í lengri eða skemmri tíma. Í kjölfar þeirra kom í ljós að ekki virðist vera til staðar neitt samræmt heildarskipulag um slíka áfallahjálp. Í kjölfar slyssins í Súðavík lét þáv. heilbrrh., Sighvatur Björgvinsson, vinna tillögur að heildstæðri áfallahjálp og væri fróðlegt að heyra hvort eitthvað hefur verið gert með þær tillögur.

Tvö áfallateymi eru starfandi hér á landi, annað á bráðamóttöku Landspítala -- háskólasjúkrahúss í Fossvogi sem sinnt hefur þörfum fyrir áfallahjálp eftir slys sem bráðamóttakan sinnir. Felst hún í viðtölum eða fundum strax eftir áfallið en ekki er um eftirfylgni að ræða. Eftirfylgni áfallahjálpar er þó ekki síður mikilvæg en fyrsta hjálp. Einnig er til áfallateymi á vegum Rauða krossins sem var stofnað að frumkvæði Sálfræðingafélags Íslands. Þetta er teymi sálfræðinga, presta, hjúkrunarfræðinga, sérkennara og félagsráðgjafa sem eru sérhæfðir í vinnu með börn sem hafa orðið fyrir kynferðislegum áföllum. Þetta teymi er hugsað til þess að sinna áfallahjálp með börnum og unglingum sem er annars konar vinna en með fullorðnum og einnig hugsað sem viðbót við Landspítalateymið í stórslysum. Þetta eru sjálfboðaliðar sem ekki er ætlað að koma inn á verksvið Landspítalateymisins, og sér Rauði krossinn um að þjálfa þennan hóp og kalla saman reglulega.

Það hefur komið í ljós að nokkuð óljóst er um verksvið og verkaskiptingu þessara tveggja teyma. Þegar jarðskjálftarnir á Suðurlandi riðu yfir setti Rauði krossinn upp hjálparstöð og rauðakrossteymi var kallað út. Þar hefði e.t.v. verið eðlilegra að kalla út áfallahjálpina frá Landspítala. Rauðakrossteymið sinnti einnig áfallahjálp við unglinga í félagshópi ungmenna sem fórust í flugslysinu í Skerjafirði. Og nú síðast var þetta rauðakrossteymi kallað til til að sinna erlendum flugfarþegum sem ekki komust úr landi eftir hryðjuverkin í New York í september.

Það væri því fróðlegt að fá hér upplýsingar um hvernig heilbrigðisyfirvöld beita áfallaúrræðum og hvort t.d. heilsugæslustöðvar, sem ættu að sinna slíkri þjónustu, hafi á að skipa þjálfuðu fólki til þess og hve mörg slík teymi eru til fyrir utan þau tvö sem ég hef hér nefnt.

Helsta brotalömin virðist vera eftirfylgni með fórnarlömbum áfalla en margir þarfnast fleiri skipta hjá sálfræðingi eins og kom fram í áliti heilsugæslulæknis á Hellu eftir Suðurlandsskjálftana. Landspítalinn taldi sig ekki geta komið til móts við þær þarfir nema fólkið kæmi í viðtöl á geðdeildir spítalans. Þetta er allsendis ófullnægjandi. Fórnarlömb hamfara á ekki að meðhöndla sem sjúklinga en með komu á geðdeild lenda þeir á sjúkraskrá. Sunnlendingar voru ekki tilbúnir til að leita til geðdeilda í Reykjavík til að fá þessa hjálp og á endanum gaf Lions-hreyfingin á Hellu fjárhæð til að greiða sálfræðingi tímabundið til að sinna þeim sem þurftu þessa þjónustu.

Í ljósi þessa alls er mikilvægt að fá svör frá hæstv. ráðherra við spurningum mínum á þskj. 167 sem ég hef því miður ekki tíma til að lesa hér upp.