Áfallahjálp

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 14:39:36 (922)

2001-10-31 14:39:36# 127. lþ. 18.3 fundur 166. mál: #A áfallahjálp# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[14:39]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem hann gaf við þessari fyrirspurn minni, og athugasemd hv. þm. sem talaði á undan mér. Vissulega vonast maður til að þáltill. sem þessi verði samþykkt því það er ljóst, þó að margt sé vel gert í áfallahjálparmálum hér eins og hæstv. ráðherra taldi upp, að enn er pottur brotinn í þeim efnum. Þó nokkuð vantar upp á að eftirfylgni sé sem skyldi. Þar er úrbóta þörf.

Ég hefði einnig gjarnan viljað spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggist gera eitthvað með þá vinnu sem unnin var eftir Súðavíkurslysið. Á meðan nefndin sem starfaði að skýrslunni frá 1995 var að störfum varð annað slys á Flateyri. Í þessari skýrslu, þó að hún sé kannski barn síns tíma og þurfi endurskoðunar við, eru margar góðar tillögur sem ástæða væri til að skoða ef sú þáltill. sem liggur fyrir þinginu verður samþykkt. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann hafi einhver áform uppi um það.

Það er alveg ljóst af því sem ég nefndi áðan að ekki er samræmi í vinnubrögðum milli starfsemi áfallahópa heilbrigðiskerfisins og sjálfboðaliða. Það sýnir sig í að Lions-hreyfingin þurfti að koma til aðstoðar og veita fjárhagsaðstoð á Hellu til þess að sinna eftirfylgdinni eftir Suðurlandsskjálftana og rauðakrosshópurinn hefur verið kallaður til a.m.k. í þrígang núna þegar áfallahjálp hefur þurft.

Ég er ekki að gera lítið úr slíkri starfsemi, alls ekki. Ég tel að öll slík sjálfboðastarfsemi og starfsemi frjálsra félagasamtaka sé mjög mikilsverð. En ég tel að samræma þurfi vinnubrögðin og spyr hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki sammála mér í því. En ég heyri á svörum hans að ýmis áform eru uppi um frekari skipulagningu.