Háspennulínur í jörð

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 14:49:14 (925)

2001-10-31 14:49:14# 127. lþ. 18.4 fundur 154. mál: #A háspennulínur í jörð# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[14:49]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Kostnaður við lagningu strengja og lína er mjög háður staðháttum, m.a. því hvort hægt er að plægja niður strengi og fyrir hvaða veðurálag hanna þarf línur. Þar sem að mestu er hægt að plægja niður strengi er kostnaður við lagningu strengja upp í 33 kílóvatta spennu nú orðinn sambærilegur eða lægri en við lagningu loftlína. Kostnaður við lagningu 66 kílóvatta strengja getur verið áþekkur og við lagningu 66 kílóvatta línu, en það er þó mjög háð staðháttum.

Kostnaður við lagningu strengja fyrir 132 kílóvatta spennu og hærri er hins vegar nær alltaf verulega meiri en við sambærilegar loftlínur. Sá mismunur eykst eftir hækkandi spennu. Þannig eru 132 kílóvatta jarðstrengir um 1,5--3 sinnum dýrari en sambærilegar háspennulínur, 220 kílóvatta jarðstrengir um 2,5--4 sinnum dýrari en sambærilegar háspennulínur og 440 kílóvatta jarðstrengir um 9--12 sinnum dýrari en sambærilegar háspennulínur.

Nýlegar var undirritaður samningur um lagningu 20 km langs 400 kílóvatta strengs í Bretlandi með 1.500 megavatta flutningsgetu. Kostnaður samkvæmt samningnum er um 300 millj. kr. á hvern km. Byggingarkostnaður 400 kílóvatta háspennulínu sem Landsvirkjun hefur byggt á undanförnum árum hefur numið um 30 millj. kr. á hvern km.

Í fyrirspurn hv. þm. eru nefndar sem dæmi loftlínur frá Sultartanga að Brennimel í Hvalfirði, svonefnd Sultartangalína 3 og loftlínur frá fyrirhugaðri Kárahnjúkavirkjun til Reyðarfjarðar, svonefndar Fljótsdalslínur 3 og 4. Þessar línur eru 400 kílóvött og á bilinu 110--120 km langar og getur hver þeirra flutt allt að 1.500 megavött, sem samsvarar framleiðslu fimm Búrfellsvirkjana.

Miðað við kostnað af lagningu strengs í Bretlandi og kostnað Landsvirkjunar við lagningu háspennulína má áætla að jarðstrengir í þessum dæmum mundu kosta allt að 10 sinnum meira en sambærileg háspennulína. Þannig yrði kostnaður við Fljótsdalslínu 3 og 4 u.þ.b. 33 milljarðar í stað 3,3 milljarða. Kostnaður við Sultartangalínu 3 yrði 36 milljarðar í stað 3,6 milljarða. Til viðbótar kemur síðan umtalsverður annar kostnaður sem gæti numið allt að tveimur milljörðum króna. Það er ekki forsvaranlegt að leggja í svo aukinn kostnað nema e.t.v. við mjög sérstakar aðstæður.

Í úrskurði Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum 400 kílóvatta Fljótsdalslínu 3 og 4 úr Fljótsdal í Reyðarfjörð segir, með leyfi forseta:

,,Ljóst er að til þess að draga að einhverju marki úr sjónrænum áhrifum af háspennulínunum væri að mati skipulagsstjóra ríkisins ekki annar kostur í stöðunni en að grafa línurnar í jörðu á löngum köflum. Sá kostur er hins vegar langt frá því að vera raunhæfur vegna kostnaðar og þess rasks sem hann hefur í för með sér. Því er það mat skipulagsstjóra ríkisins að út af öryggis-, hagkvæmnis-, tækni- og umhverfissjónarmiðum sé ekki fyrir hendi annar kostur en að leggja Fljótsdalslínur 3 og 4 í loftlínu um það svæði sem framkvæmdaraðili hefur kynnt sem valkost sinn í framlögðum gögnum.``

Þá er til þess að líta að 400 kílóvatta strengir sem komið gætu í stað umræddra háspennulína eru innan við 10 km að lengd og einkum notaðir í stórborgum til tenginga milli stórra aðveitustöðva. Lengsti strengur þessarar tegundar í heiminum í dag er í sunnanverðri Kaupmannahöfn og er 22 km langur. Ástæða þess að strengir fyrir svo háa spennu eru einungis notaðir á styttri vegalengdum er sú að raffræðileg vandamál aukast með hækkandi rekstrarspennu, sem takmarkar notagildi strengjanna.

Það er því allsendis óvíst, þótt litið sé fram hjá gríðarlegum kostnaðarauka, að yfir höfuð sé mögulegt að leggja svo langan 400 kílóvatta jarðstreng.

Orkufyrirtæki fylgjast vel með öllum framförum í gerð strengja og munu leitast við að beita þeirri lausn í eins miklum mæli og hagkvæmt þykir.