Kynning á evrunni

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 14:59:12 (929)

2001-10-31 14:59:12# 127. lþ. 18.5 fundur 197. mál: #A kynning á evrunni# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[14:59]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir):

Hæstv. forseti. Um áramótin munu peningaseðlar og mynt hins nýja gjaldmiðlis evrunnar verða lögeyrir í 12 aðildarríkjum Evrópusambandsins, en evran hefur sem kunnugt er verið virkur gjaldmiðill í tæplega þrjú ár.

Upptaka evrunnar í öllum ESB-löndunum, utan Danmerkur, Svíþjóðar og Bretlands, mun að sjálfsögðu hafa bæði bein og óbein áhrif hér á landi. Um 300 millj. manna búa í þeim löndum sem setja evruna í umferð 1. janúar næstkomandi en óhætt er að fullyrða að hér sé á ferðinni stærstu gjaldmiðilsskipti sögunnar. Frá 28. febrúar 2002 verður ekki lengur hægt að nota gamla gjaldmiðla evruríkjanna 12 sem greiðslumiðil. Síðan er breytilegt eftir löndum hversu lengi verður hægt að skipta gömlu gjaldmiðlunum yfir í evrur í bönkum evruríkjanna.

Herra forseti. Það eru tveir mánuðir þar til þetta verður og ekki hefur orði vart mikillar umræðu hér á landi um hinar praktísku hliðar gjaldmiðilsskiptanna þótt nokkuð hafi borið á umræðu um hin efnahagslegu og hagstjórnarlegu áhrif evrunnar og efnt hafi verið til almennra funda þar um. Reyndar vill svo til að í morgun var efnt til fundar um áhrif evrunnar á Íslandi á vegum framkvæmdastjórnar ESB, Euroinfo-skrifstofunnar og Útflutningsráðs.

Bein áhrif þessara breytinga á hinn íslenska borgara eru að sjálfsögðu aðallega á ferðamenn og svo á þá sem eiga bankainnstæður hér á landi í þeim gjaldmiðlum sem úr gildi falla á næsta ári. Miklu máli skiptir að neytendur séu vel upplýstir um þær breytingar sem í vændum eru, t.d. ef menn eiga þýsk mörk eða franska franka í handraðanum. Þá er skynsamlegra að drífa sig í bankann eigi síðar en á jólaföstu og leggja inn á innlendan gjaldeyrisreikning í evru eða skipta í íslenskar krónur. Ef fólk dregur að gera þetta fram yfir áramót þá gæti það þurft að greiða aukakostnað við að skipta þeim gjaldmiðlum sem úr gildi falla.

Í ljósi þessa leyfi ég mér að spyrja hæstv. viðskrh., yfirmann neytendamála hér á landi, hvor hún muni beita sér fyrir því að neytendur verði sérstaklega upplýstir um þær breytingar sem fram undan eru og þær kynntar sérstaklega fyrir þeim á þeim tveimur mánuðum sem eftir eru þar til evran fer í umferð.