Kynning á evrunni

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 15:01:38 (930)

2001-10-31 15:01:38# 127. lþ. 18.5 fundur 197. mál: #A kynning á evrunni# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[15:01]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda verður evran tekin upp sem gjaldmiðill í 12 ESB-löndum um næstu áramót. Grikkir ákváðu nú síðast haustið 2000 að taka upp evru svo að nú eru ríkin orðin 12.

Viðskrn. og Seðlabankinn hafa kynnt evruna með ýmsum hætti í ræðu og riti að undanförnu. Á hinn bóginn er ekki fyrirhugað af hálfu þessara aðila að efna til sérstaks kynningarátaks vegna upptöku evruseðla og mynta nú um áramótin. Kynning stjórnvalda í evrulöndunum er eðli málsins samkvæmt mjög mikil um þessar mundir, enda verið að skipta um lögeyri í þessum ríkjum.

Í ríkjum sem standa utan við Efnahags- og myntbandalagið þarf aðeins að kynna fyrir almenningi hvað eigi að gera við peningaseðla í gömlum gjaldmiðlum og hvernig skuli fara með ávísanir, innlenda gjaldeyrisreikninga og ferðatékka. Samtök banka og verðbréfafyrirtækja hafa tekið þessa kynningu að sér. Samtökin hafa gefið út vandaðan bækling sem heitir Evra -- hvað gerist 1. janúar 2002? Þar er svarað öllum spurningum um myntbreytinguna sem almenningur þarf að fá svör við. Þessi bæklingur er aðgengilegur almenningi í öllum bankaútibúum. Bankar hyggjast kynna myntbreytinguna betur fyrir viðskiptamönnum sínum þegar nær dregur áramótum. Ég skil bæklinginn eftir hérna í pontunni.