Lyfjanotkun ungmenna í framhaldsskólum

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 15:16:16 (934)

2001-10-31 15:16:16# 127. lþ. 18.94 fundur 92#B lyfjanotkun ungmenna í framhaldsskólum# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[15:16]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Áfengis- og vímuvarnaráð hefur nýlega kynnt könnun á vímuefnaneyslu ungs fólks. Rannsóknin nær eingöngu til þeirra sem eru í skólum. En gera má ráð fyrir því að neysla þeirra sem fallið hafa úr skóla eða aldrei hafið framhaldsnám sé engu minni a.m.k. hvað reykingar snertir og að öllum líkindum á neyslu ólöglegra efna einnig.

Herra forseti. Það væri því æskilegt að beina því til áfengis- og vímuvarnaráðs að kanna neyslu þeirra sem eru utan skóla ef það hefur ekki þegar verið gert.

En hvar hafa unglingarnir aðgang að lyfseðilsskyldum lyfjum ef þau fá þau ekki sjálf hjá lækni og eru ekki undir eftirliti læknis? Þetta er mikilvæg spurning sem við verðum að fá svör við því að lyfseðilsskyld lyf ganga kaupum og sölum eins og ólöglegu vímuefnin. Er því ný tekjulind eða nýr markaðshópur dópsala kominn fram.

Herra forseti. Við getum ekki látið hér staðar numið því að við verðum að fá upplýsingar um ástæður þess að unglingarnir taka í auknum mæli róandi lyf og svefnlyf. Líðan þeirra getur ekki verið góð en ástæður vanlíðunar eru örugglega margbrotnar og ef við viljum ráðast á rót vandans, þá þýðir ekki að vera með getgátur.

Herra forseti. Þessi vitneskja á að hvetja til þess að komið verði hið fyrsta á heilsuvernd í öllum framhaldsskólum. Nærvera hjúkrunarfræðings og annarra heilbrigðisstarfsmanna á skólatíma getur sannarlega skipt sköpum þegar ungt fólk stendur frammi fyrir erfiðum ákvörðunum eða þurfa faglegar leiðbeiningar fullorðins einstaklings sem hægt er að treysta og er bundinn trúnaði.