Lyfjanotkun ungmenna í framhaldsskólum

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 15:27:18 (939)

2001-10-31 15:27:18# 127. lþ. 18.94 fundur 92#B lyfjanotkun ungmenna í framhaldsskólum# (umræður utan dagskrár), SÓ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[15:27]

Stefanía Óskarsdóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu lyfjanotkun ungmenna. Vil ég fyrst fara örfáum orðum um könnunina sem hér er til umræðu, en víkja síðan nokkrum orðum að leiðinni til að efla forvarnir gegn vímuefnaneyslu á Íslandi.

Fram hefur komið í máli þeirra sem unnu könnunina að spurningar um vímuefnaneyslu voru einungis hluti þess sem um var spurt. Hún var ekki samin með það fyrir augum að leiða í ljós hvers vegna unglingar neyta áfengis, tóbaks, vímuefna eða annarra lyfja. Af þeim sökum er ekki hægt að fullyrða mikið út frá niðurstöðum hennar um ástæður þess að ungmenni neyta lyfja og vímuefna eða með hvaða hætti ungmenni komast yfir þessi sömu efni.

Vera má að útbreidd notkun svefnlyfja og róandi lyfja í hópi fullorðinna ýti undir notkun ungmenna á slíkum lyfjum. Ef til vill eru þeir foreldrar til sem hvetja börn sín á álagstímum að taka svefntöflur eða jafnvel eitthvað róandi án samráðs við lækna. Það er vitaskuld áhyggjuefni ef það er algengt að neytendur lyfja sem fengið hafa lyf út á lyfseðil, miðli þeim til annarra í misskilinni greiðasemi.

En víkjum þá að tengslum fræðslu- og forvarna. Dr. Anna Birna Almarsdóttir hefur kannað afstöðu barna til lyfja. Niðurstöður hennar sýna að sterk tengsl eru milli þeirrar vitneskju sem börn hafa um lyf og afstöðu þeirra til lyfja og vímuefnanotkunar síðar. Í þessu felst að því meira sem börn vita um lyf, nytsemi þeirra jafnt sem skaðsemi, því ólíklegra er að þau misnoti þau. Við getum af þessu lært að fræðsla skiptir miklu máli í öllu forvarnastarfi gegn misnotkun lyfja og vímuefna. Öflugt fræðslustarf, svo sem á heimilum, í skólum, lyfjaverslunum og víðar er afar þýðingarmikið.

Reynslan hefur jafnframt sýnt okkur að stuðningur og aðhald í foreldrahúsum eru mikilvægar forsendur þess að börn og ungmenni leiðist ekki út í vímuefnaneyslu. Foreldrar þurfa að setja börnum sínum skýr mörk og eyða með þeim tíma. Samstarf og samstaða foreldra skiptir einnig miklu máli, t.d. varðandi ásættanlega hegðun og útivistartíma. Forvarnastarf í skólum, skipulagt æskulýðsstarf og tómstundastarf og jafningjafræðsla eru einnig allt mikilvægir hlekkir í forvarnastarfinu.

Niðurstaðan er því sú að virkt samstarf sem flestra í þjóðfélaginu sem vinnur gegn agaleysi og losarabrag dregur úr líkum þess að börn og ungmenni lendi í ógöngum.