Lyfjanotkun ungmenna í framhaldsskólum

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 15:32:29 (941)

2001-10-31 15:32:29# 127. lþ. 18.94 fundur 92#B lyfjanotkun ungmenna í framhaldsskólum# (umræður utan dagskrár), Flm. MF
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[15:32]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim sem tóku þátt í þessari umræðu og þá sérstaklega hæstv. ráðherra sem mér heyrist að muni vilja beita sér fyrir því að könnuð verði til hlítar ástæða þess að róandi lyf, svefnlyf, eru hér á markaði ef svo má segja, þ.e. að einstaklingar og þá sérstaklega ungmenni geta nálgast þau án þess að þeim hafi verið ávísað frá læknum og hann tók sérstaklega fram að landlæknisembættið hefði þegar farið í þá vinnu.

Ég vil ítreka spurningu mína: Mun landlæknisembættið fá aukafjárveitingu til þess að sinna verkefninu?

Við vitum öll sem hér erum að fjárhagur landlæknisembættis er ekki þannig að það geti tekið að sér verkefni umfram þau sem hafa verið í gangi. Á fjáraukalögum er reiknað með einu stöðugildi til að taka sérstaklega á ástæðum sjálfsvíga sem hefur fjölgað á undanförnum árum. Þetta getur verið hluti af þessu vandamáli sem hér er rætt. Þetta er auðvitað samtengt. Aukin lyfjanotkun, það að notkun róandi lyfja og svefnlyfja hafi aukist um 60% á síðastliðnum tíu árum segir okkur ákveðna sögu. Það verður að taka á þessu með mjög afgerandi hætti.

Virðulegi forseti. Það er svolítið erfitt að gera athugasemdir við önnur svör hæstv. ráðherra því honum vannst ekki tími til þess að ljúka þeim, nema hvað varðar innflutning á lyfjum. Þar hefur hann aðeins misskilið spurningu mína því ég var ekki að spyrja um þau fyrirtæki sem flytja löglega inn lyf. Ég er að spyrja hvort hægt sé að herða eftirlit með þeim farþegum sem koma erlendis frá og eru að bera inn í landið lyf sem eru ekki lyfseðilsskyld erlendis, en eru það hér. Ég er hrædd um að pottur sé svolítið brotinn hvað varðar eftirlit með þessu þar sem engin sérstök þjálfun hefur átt sér stað hjá tolleftirlitinu til að koma í veg fyrir slíkan innflutning, enda hafa menn einbeitt sér að því að koma í veg fyrir innflutning harðari efna.

Virðulegi forseti. Nú fæ ég restina af svörunum og þakka fyrir.