Lyfjanotkun ungmenna í framhaldsskólum

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 15:34:46 (942)

2001-10-31 15:34:46# 127. lþ. 18.94 fundur 92#B lyfjanotkun ungmenna í framhaldsskólum# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[15:34]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur verið í þessum knappa tímaramma sem vissulega hefur orðið til þess að ekki hefur verið hægt að ræða málið til hlítar eins og annars væri.

Spurt var hvort landlæknisembættið fái frekari fjárveitingar til að skoða þetta mál sérstaklega.

Ég er áhugasamur um að landlæknisembættið hafi jafnan á hraðbergi skýringar á því sem er að gerast í lyfjanotkun og hafi um það samvinnu við Lyfjastofnun, lyfjamáladeild ráðuneytisins og Tryggingastofnun. En þetta mál snýst að mínum dómi ekki um fjárveitingar á þessu stigi málsins. Það er hægt að efla eftirlitið án þess að svo verði a.m.k. á þessu stigi.

Varðandi innflutning einstaklinga á lyfjum sem eru lyfseðilsskyld hérlendis en ekki erlendis þá er það vissulega málefni sem heyrir undir tollgæsluna. Það er ástæða til þess að skoða það, en eftirlit með þeim innflutningi á Keflavíkurflugvelli heyrir ekki að öllu leyti undir ráðuneytið.

Enn fremur var spurt um annað mál sem heyrir einnig undir dómsmrn., þ.e. refsirammann í þessum efnum. En um innflutning og útbreiðslu læknislyfja gildir almennt 173. gr. hegningarlaga, þar sem bæði er kveðið á um fangelsisrefsingu og sektir eftir eðli brots.

Almennt talað má segja að tekið hafi verið hart á fíkniefnamálum á undanförnum árum, en betur má ef duga skal. Þá hef ég sérstaklega í huga að efla forvarnaþáttinn og beina kröftum þeirra sem vinna að þessu máli í einn farveg og þessum málum og öðrum í forvörnum. Það er einbeittur ásetningur minn að koma á meira skipulagi í þeim efnum. Ég vona svo sannarlega að það verði til góðs í þessum mjög svo mikilvæga málaflokki sem hefði verið hægt að ræða um miklu lengur. Ég biðst afsökunar á því að hafa orðið að stytta mál mitt mjög.