Skýrsla Byggðastofnunar um byggðarlög í sókn og vörn

Miðvikudaginn 31. október 2001, kl. 15:50:29 (946)

2001-10-31 15:50:29# 127. lþ. 18.95 fundur 93#B skýrsla Byggðastofnunar um byggðarlög í sókn og vörn# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 127. lþ.

[15:50]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Með byggðaáætluninni sem nú gildir voru ný vinnubrögð lögð til grundvallar og lagðar fram tillögur sem miðuðu að því að bregðast við því sem við vissum sannast um ástæður búseturöskunar. Það er ljóst að mjög margt hefur verið vel gert í hefðbundnum byggðaaðgerðum. Stórstígar framfarir hafa orðið í vegamálum. Húshitunarkostnaður á landsbyggðinni hefur víða lækkað, námskostnaðurinn hefur verið jafnaður, símakostnaðurinn og kostnaður vegna gagnaflutninga sömuleiðis og við höfum upplifað mikla uppbyggingu fjarnáms sem hefur opnað landsbyggðarfólki nýjar leiðir.

Nokkuð hefur verið rætt um að lækka mætti skatta á landsbyggðinni til þess að mæta byggðavandanum. Í því sambandi er nauðsynlegt að vekja athygli á að í raun og veru hefur slík leið verið farin með þeirri breytingu sem gerð var á álagningu fasteignaskatts. Nú er ekki lengur stuðst við fasteignamat eins og það var á höfuðborgarsvæðinu heldur er raunverulegt fasteignamat eins og það er lagt til grundvallar á hverjum stða. Þar með lækkuðu fasteignaskattar á landsbyggðinni um 1,2 milljarða kr. á einu ári. Þetta er sjálfsagt réttlætismál en um leið ein öflugasta byggðaaðgerð sem framkvæmd hefur verið. Á þetta ber að leggja áherslu og mig undrar satt að segja að atvinnurekendur á höfuðborgarsvæðinu skuli ekki sjá sóknarfæri í þessu með því að flytja úr húsnæðisokrinu og undan háum fasteignasköttum á höfuðborgarsvæðinu og út á land.

En hvað hefur þá brugðist? Jú, það er einfalt. Stærsta atriðið sem við bentum á við gerð byggðaáætlunarinnar hefur ekki verið framkvæmt. Niðurstaðan í byggðaáætluninni var sú að mestu máli skipti að treysta atvinnulífið og auka fjölbreytni þess. Þar gegnir ríkið gríðarlega miklu hlutverki vegna þess að ríkið er stærsti vinnuveitandinn í landinu. Þar hafa efndirnar hins vegar verið í algeru skötulíki með fáeinum undantekningum eins og glögglega má sjá í skýrslu hæstv. iðnrh. sem hér var dreift á síðasta vori.

Því miður hafa menn algerlega látið úr greipum sér ganga óteljandi tækifæri til að setja niður opinber verkefni út á land. Fram hjá þessu verður ekki horft og er ekki hægt að láta óátalið, enda er hreinlega verið að ganga á svig við markmið, anda og tillögur byggðaáætlunarinnar.

Til viðbótar við þetta er auðvitað ljóst að sú staðreynd að við höfum mátt búa við stöðugt minnkandi fiskafla hefur bókstaflega leitt til fólksfækkunar. Það hefur haft mjög alvarlegar afleiðingar á tekjustreymi í sjávarútvegsbyggðunum. Minni bolfiskafli hefur lækkað tekjur útgerðarinnar og dregið úr tekjum fiskvinnslunnar sem hafa verið burðarmestu atvinnuþættirnir utan höfuðborgarsvæðisins á umliðnum árum.