Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 10:32:50 (956)

2001-11-01 10:32:50# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[10:32]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, á þskj. 160 og frv. til laga um breytingu á lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989, á þskj. 161.

Ég mæli fyrir þessum frumvörpum saman þar sem sú breyting sem lögð er til á lögunum um náttúruvernd um að leggja niður Náttúruverndarráð felur í sér að gera þarf breytingu á lögum nr. 52/1989 hvað varðar það ákvæði er fjallar um framlag Endurvinnslunnar hf. til Náttúruverndarráðs.

Frv. til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd er samið í umhvrn. í samvinnu við Náttúruvernd ríkisins og Náttúrufræðistofnun Íslands. Ég mun gera grein fyrir þeim breytingum sem frumvörpin fela í sér.

Í frv. til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd er lagt til að Náttúruverndarráð verði lagt niður og gerðar verði breytingar á ákvæðum laganna til samræmis við það. Frá því að Náttúruverndarráð fór að starfa á árinu 1997 eftir nýjum lögum og nýrri skipan hafa orðið miklar breytingar á umfjöllun og þátttöku almennings í ákvarðanatöku um umhverfismál. Starfsemi Náttúruverndar ríkisins hefur eflst á þessum tíma og reynslan sýnir að með auknu stjórnsýsluhlutverki og virkari þátttöku stofnunarinnar í ráðgjöf og umfjöllun um umhverfismál hefur dregið úr þörf á sérstökum opinberum ráðgjafarvettvangi eins og Náttúruverndarráði. Hlutverk og aðkoma Náttúrufræðistofnunar Íslands að náttúruverndarmálum var einnig aukin með nýjum náttúruverndarlögum árið 1999 og skarast hlutverk stofnunarinnar nokkuð við ráðgjafarhlutverk ráðsins. Þá hafa frjáls félagasamtök tekið í vaxandi mæli virkan þátt í umfjöllun um umhverfismál.

Á síðustu árum hefur því átt sér stað hér á landi ákveðin þróun varðandi umfjöllun um umhverfismál sem rétt þykir að tryggja í sessi. Þetta er í samræmi við þróun annars staðar.

Ég vil geta þess að á síðasta ári var skrifað undir samstarfsyfirlýsingu umhvrn. og frjálsra félagasamtaka sem hafa umhverfis- og náttúruvernd sem viðfangsefni. Markmið þessarar yfirlýsingar er að efla lýðræðislega umræðu um umhverfis- og náttúruvernd. Hlutverk frjálsra félagasamtaka felst ekki síst í að koma upplýsingum til almennings. Það var því talið mikilvægt að efla samráð við frjáls félagasamtök um stefnumörkun í umhverfismálum og um framkvæmd umhverfisverndar.

Í frv. er gerð tillaga um að Friðlýsingarsjóður verði lagður niður en Náttúruverndarráð sér í dag um vörslu sjóðsins. Með breytingu sem gerð var á skipulagsskrá fyrir Þjóðhátíðarsjóð, samanber auglýsingu nr. 673/2000, var gerð sú breyting að Friðlýsingarsjóður er ekki lengur tilgreindur sem aðili sem fær ákveðið framlag af ráðstöfunarfé sjóðsins eins og áður var. Þar sem framlag Þjóðhátíðarsjóðs voru í raun einu tekjur sjóðsins eru ekki lengur taldar forsendur fyrir starfsemi hans.

Þá er gerð tillaga um að hlutverk náttúruverndarþings verði breytt og það verði nefnt umhverfisþing en þinginu er ætlað að hafa víðtækara hlutverk en náttúruverndarþing. Þinginu er m.a. ætlað að fjalla um stöðu umhverfismála, umhverfis- og náttúruvernd og sjálfbæra þróun. Umfjöllun um náttúruverndarmálefni verða þannig betur tengd við aðra þætti umhverfismála og samfélagsþróun en verið hefur á náttúruverndarþingum. Minna má á að umhvrh. hefur boðað tvívegis til umhverfisþings og hafa þau gefist vel.

Að lokum eru lagðar til nokkrar minni háttar breytingar á lögunum að því er varðar skilgreiningu hugtaka og umsagnarrétt Náttúruverndar ríkisins vegna útgáfu framkvæmdarleyfis vegna efnistöku á landi úr hafsbotni innan netalagna.

Ég legg áherslu á að hluta þeirra fjármuna sem varið hefur verið úr ríkissjóði til reksturs Náttúruverndarráðs, sem á síðasta fjárlagaári numu 8 millj. kr., verður hér eftir ráðstafað til náttúruverndarmála og til að styrkja frjáls félagasamtök sem starfa að umhverfismálum og vísa ég í því sambandi til þeirra félagasamtaka sem standa að og í framtíðinni kunna að standa að samstarfsyfirlýsingu við umhvrn. sem nefnt hefur verið hér áður. Þetta verður skoðað í tengslum við yfirstandandi fjárlagagerð.

Þar sem gerð er tillaga um að Náttúruverndarráð verði lagt niður er samhliða þessu frv., eins og áður segir, er lagt fram frv. til laga um breytingu á lögum nr. 52/1989, þar sem fellt er brott það ákvæði laganna sem fjallar um að Endurvinnslunni hf., sem hefur stafsleyfi samkvæmt þeim lögum, beri að greiða 5% af árlegum tekjuafgangi sínum til Náttúruverndarráðs.

Hæstv. forseti. Ég hef nú rakið meginefni þessara frv. og legg til að þeim verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og til umfjöllunar í hv. umhvn.