Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 11:11:01 (969)

2001-11-01 11:11:01# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[11:11]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þarf ekkert að svara þessu neitt frekar. Ég er búinn að lýsa því hér sem ég tel þurfa að koma fram í þessu máli.

Ég hef ekki áhyggjur af frjálsu félagasamtökunum. Ég álít að ríkið muni sjá til þess að veitt verði fé til þessara samtaka. Auðvitað er það alltaf misjafnt hvað hver og ein samtök fá mikið fé. Aftur á móti er alveg ljóst að þessi félög hafa möguleika á því að fá fjármuni víðar en hjá ríkinu. Þau eiga að geta fengið fjármuni hjá sveitarfélögum, einstaklingum og fyrirtækjum úti í bæ. Ég sé ekki neitt sem á að valda mönnum áhyggjum í því efni.

Auðvitað hljóta ríkisstjórnir og einstakir ráðherrar að ráða til sín fólk sem þeir vilja vinna með. Ég sé ekkert athugavert við það. Það þýðir ekki það sama og að þeir ætli að ráða sér leiðitama menn, heldur fólk sem hægt er að treysta til að ná árangri með.

Ég held að allir ráðherrar og aðrir sem standa í stjórnsýslu séu í því til að geta gert góða hluti, til að geta gert eitthvað gott fyrir samfélag sitt, fyrir fólkið sitt. Þannig held ég að allir reyni að vinna. Það er ástæðulaust að gera það tortryggilegt þó að ráðherrar og aðrir ráði sér fólk sem það treystir betur en öðru.