Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 11:14:09 (971)

2001-11-01 11:14:09# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[11:14]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það þurfi ekkert að vera að eyða mjög mörgum orðum á þetta. Nánast hver einasta virkjanaframkvæmd, held ég, sem rædd hefur verið á undanförnum árum hefur orðið tilefni til andstöðu sumra þeirra hópa sem skipað hafa Náttúruverndarráð. Ég held að það sé nánast sama um hvaða virkjun á hálendinu er að ræða. (Gripið fram í: Er það ekki eðlilegt?) Já, þá kemur þessi spurning: Er ekki eðlilegt að vera á móti öllu? Þetta er akkúrat sjónarmiðið, hv. þm.

Það eru einmitt þessi mjög mismunandi sjónarmið og þessi mikli ágreiningur sem hefur komið upp í Náttúruverndarráði út af öllum mögulegum málum sem hafa varðað virkjanir og umhverfið á hálendinu sem hafa kannski gert ókleift að nota það til ráðgjafar. Um það snýst málið.

Ég er ekkert hræddur um að þessi frjálsu félagasamtök geti ekki fengið fjármagn þó svo það sé ekki nákvæmlega í takt við viðkomandi ráðherra eða ráðuneyti. Það er líka veitt fjármagn í gegnum fjárln. eins og hv. þm. veit. (Gripið fram í: Þú manst hvernig það fór í fyrra.) Þar að auki geta slík frjáls félagasamtök fengið fjármuni frá öðrum aðilum eins og sveitarfélögum, einstaklingum og fyrirtækjum, þó það sé í minna mæli.

Svo var í gegnum Árósasamþykktina gert ráð fyrir sérstöku átaki af hálfu ríkisstjórna til að styrkja frjáls félagasamtök í heiminum og þar á meðal á Íslandi. Ég er einn af þeim sem telja það nauðsynlegt.