Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 11:16:15 (972)

2001-11-01 11:16:15# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[11:16]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Áhyggjur mínar af þessu máli hafa aukist nokkuð við umræðuna. Mér fannst, eins og ég sagði áðan í andsvari, að hæstv. ráðherra væri dálítið að gefa til kynna að þeir sem yrðu henni þóknanlegir mundu fá fjármuni en aðrir gengju þá með skarðari hlut frá borði. Það yrðu sem sagt tveir flokkar sem fengju hugsanlega fjármuni en sá hópurinn sem minna bæri úr býtum hefði þá kannski valið sér það hlutskipti með því að ganga of hart fram í andstöðu við einhver mál sem stjórnvöldum þóknast.

Ég er út af fyrir sig ekki að halda því fram að ekki megi gera breytingar á fyrirkomulaginu sem er. Ég tel að það þurfi að fara vandlega yfir það í umhvn. og skoða hvort niðurstaðan sem þarna er styrki náttúruvernd í landinu.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra á hvaða hátt hún sjái fyrir sér, og bið hana að útskýra það svolítið betur, styrkingu náttúruverndar í landinu í heild með þessari breytingu. Ég spyr að gefnu tilefni vegna þess að hæstv. ráðherra lýsti því áðan að það ætti að draga úr framlögum til þessara mála með þessari breytingu. Ráðherrann talaði um að hluti af þeim 8 millj. sem hafa verið þarna til ráðstöfunar kæmi til frjálsra félagasamtaka, einungis hluti. Ég spyr: Hvað um þá fjármuni sem Endurvinnslan hefur greitt inn í þetta og ekki er talað um hvað eigi að gera við? Ég vil að hæstv. ráðherra fari yfir það hvað hún telji að verði til ráðstöfunar til þessara mála í heildina eftir þessa breytingu í samanburði við það sem verið hefur til ráðstöfunar. Er að draga verulega úr því og hve mikið? Þannig að menn komist svolítið nær sannleikanum um hvort verið er að styrkja náttúruvernd í landinu með þessari breytingu. Það vita allir, og kannski best hv. þm. á hv. Alþingi, að það þarf fjármuni til þess að reka starfsemi af því tagi sem hér er um að ræða.

Ég ætla ekki að fara í langt mál um þetta að öðru leyti en því að segja að mér finnst hæstv. ráðherra hafa verið of hörundssár síðan hún tók við embætti gagnvart gagnrýni fólks af þessu tagi, fólks sem hefur verið í forsvari fyrir náttúruverndarsamtök. Það er einfaldlega hluti af starfi hæstv. ráðherra að liggja undir gagnrýni vegna ákvarðana stjórnvalda og sú gagnrýni er alltaf jákvæð ef menn eru í einlægni að segja frá skoðunum sínum. Ég tel enga ástæðu til að halda að þannig hafi ekki verið á undanförnum árum. Mér finnst satt að segja viðkvæmni manna hafa keyrt fram úr hófi vegna harðrar andstöðu við mál sem allir ættu að geta viðurkennt að hafa verið afar vafasöm og eðlilegt er að menn takist mjög harkalega á um.

Ég vona að ekki verði komið á einhverju lognmolluumhverfi með þessu fyrirkomulagi sem hér er verið að leggja til, sem tryggi lágmarksandstöðu við þau mál sem upp koma. Ég held að í náttúruverndarmálum þurfi menn á því að halda að takast á og að öll sjónarmið þurfi að fá tækifæri til að koma fram. Ég tel að hinu opinbera sé síður en svo hollt að styrkja helst þá aðila sem eru þeim þægilegastir.