Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 11:21:22 (973)

2001-11-01 11:21:22# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[11:21]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Það er kannski ekki tilefni til þess að hafa mjög langt mál um þetta frv. hér við 1. umr. Það er ljóst að það verður að skoða málið mjög vel í nefndinni.

Auðvitað hrekkur maður við þegar maður heyrir framsetningu hv. þm. Kristjáns Pálssonar. Þá áttar þingheimur sig kannski á því hvað býr raunverulega á bak við breytinguna. Það er alveg forkastanlegt, virðulegi forseti, að menn skuli tala hér fullum rómi um öfgasamtök ef þeir eru ekki sammála málflutningi viðkomandi. Hvað eigum við þá að tala um sem erum ekki sammála þeirri pólitík sem fram er fylgt á hinu háa Alþingi? Eigum við t.d. að tala fullum fetum um öfgasamtök manna sem vilja keyra fram einkavæðingu? Þetta er nú ekki boðlegt finnst mér.

Við eigum að horfa á gildi þess að fá fram frjóar umræður og gagnrýni. Ef menn treysta sér til þess að vinna á lýðræðislegan hátt, á demókratískan hátt, þá er vart hægt að tala um öfgafull sjónarmið. Alls ekki. Ég get talað af reynslu í umhverfismálum vegna þess að ég var umhverfisstjóri fyrir stórt sveitarfélag í 20 ár. Ég sem framkvæmdaraðili verð að viðurkenna að stundum fór kannski framsetning sumra aðila í taugarnar á mér, þegar verið var að gera athugasemdir við framkvæmdir sem maður sjálfur hélt að væru í lagi. En ég er nú reynslunni ríkari af þessari vinnu. Þegar upp er staðið þá held ég að slík gagnrýni hafi ævinlega verið mönnum til góðs, þó að menn hafi kannski ekki áttað sig á því fyrr en nokkrum árum seinna. Ég get nefnt mörg dæmi í þessu tilliti.

Og það er beinlínis hættulegt lýðræðinu að staglast á því að ákveðin félög séu öfgasamtök af einhverju tagi fyrir það eitt að hafa ekki sömu skoðun og sá sem keyrir rútuna hverju sinni. Þetta er ekki boðlegt hinu háa Alþingi.

Ég tel að náttúruverndarþing hafi einmitt verið svo spennandi samkoma vegna þess að þar komu fram ýmis sjónarmið. Menn fjalla þar um eigin áhugasvið og jafnvel fyrir okkur sem unnum í faginu þá komu þar inn sjónarmið sem maður hafði kannski ekki velt mikið fyrir sér. Það var öllum til gagns.

Málið er að vinnulagið er orðið slíkt á hinu háa Alþingi, með langri stjórnarsetu stærsta flokksins hér og með langri samvinnu við Framsfl. og sterkum meiri hluta, að menn eru orðnir pirraðir á að þurfa yfir höfuð að eyða tíma í að hlusta á önnur sjónarmið en þeirra sem innan borðs eru. Það veit sá sem allt veit að til lengri tíma litið er þetta stórhættuleg pólitík. Þegar menn fara að verða sjálfumglaðir og eru komnir það langt að fara að hreinsa út, bægja frá sér því sem óþægilegt er að þeirra mati, þá erum við ekki á heppilegri braut.

Ég er ekki bara að tala um þetta frv. núna. Ég tel að unnið sé hörðum höndum á þessum nótum að breytingum alls staðar í stjórnkerfinu, m.a. hér á hinu háa Alþingi með alls konar breytingum eins og við höfum séð.

Varðandi fjármögnun. Endurvinnslumálin, ég er ekkert viss um að þau séu aflögufær til þess að fjármagna þá hluti sem hér er rætt um, í sambandi við næsta frv. Ég ætla að koma að því seinna. Ég held að við séum komin mjög stutt í endurvinnslumálum og þurfum á öllu því fjármagni að halda sem þar er inni til að efla endurvinnslu í landinu enn frekar. Við þurfum nú að skoða þau mál líka.

Virðulegi forseti. Ég vildi bara tala um þetta á almennum nótum. Ég held að það hafi komið fram í umræðunni, bæði hjá hæstv. ráðherra og einnig hjá hv. þm. Kristjáni Pálssyni, að hér þarf að skoða málin ofan í kjölinn.