Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 11:26:14 (974)

2001-11-01 11:26:14# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[11:26]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson segir að það sé stórhættuleg pólitík að breyta Náttúruverndarráði eða skipta því út fyrir náttúruverndarþing. Ég lít svo á að á náttúruverndarþingi verði hægt að ræða nánast öll þau mál sem hafa verið rædd á þingi þessara samtaka fram að þessu. Að því leyti er ekki verið að breyta neinu.

Varðandi það að þessum samtökum sé breytt vegna þess að stjórnvöld eða meiri hluti Alþingis telji þau of öfgafull --- ég hef sagt það --- þá verður að segjast alveg eins og er, herra forseti, að sú ótrúlega einstrengingslega barátta margra þeirra sem skipað hafa Náttúruverndarráð gegn öllum hugmyndum um virkjanir, nánast sama hvar þær eru, er stórskaðleg. Það er í raun stórskaðlegt fyrir íslenskt samfélag að mörgu leyti hvernig barist hefur verið gegn eðlilegri uppbyggingu á landsvæðum eins og t.d. Austurlandi. Það er nánast ekkert hægt að gera á þessu svæði sem ekki fer í taugarnar á náttúruverndarsamtökum yfirleitt.

Það er ekki boðlegt hvernig þetta hefur gengið fyrir sig. Það er alltaf spurning um hvað er hættulegt. Hvort er hættulegra fyrir íslenskt samfélag, að vera með samtök sér við hlið sem styðja eðlilega uppbyggingu í landinu eða samtök sem eru á móti nákvæmlega öllu sem á að gera í þessu landi? Hér á bara að vera algjör stöðnun miðað við þær hugmyndir sem maður hefur heyrt frá allt of stórum hópi í Náttúruverndarráði.