Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 11:28:11 (975)

2001-11-01 11:28:11# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[11:28]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Við komust kannski langt í þessari umræðu. Ég er einfaldlega algjörlega ósammála framsetningu hv. þm. Kristjáns Pálssonar á þessum málum.

Ég held að það sé sama um hvaða verkefni er að ræða, sama hvaða framkvæmdir það eru --- ef framkvæmdin þolir ekki gagnrýni frá samtökum náttúruverndarsinna þá er náttúrlega eitthvað að. Öll gagnrýni á stórar framkvæmdir af þessu tagi, sama hvað það er, á að leiða til þess að menn vandi sig og geri betur. Í mörgum tilfellum er það gagnrýnin í meðferð málsins sem verður til þess að menn velja betri leiðir, er það ekki?

Að mínu mati er rangt að stilla hlutum þannig upp að þessir menn hafi þau völd að þeir geti bara stöðvað framkvæmdir sama hversu góðar þær eru. Hins vegar gefur það augaleið að ef verkefnið er ekki gott þá hafa menn umtalsverð áhrif. Þannig virkar lýðræðið og þannig á það að virka.

En það er ekkert nýtt að menn vilji í krafti mikils valds, og við þekkjum það af sögunni, ryðja út þeim sem eru fyrir valdhöfunum hverju sinni. Við þurfum ekki að fara mörg ár aftur í tímann eða áratugi til að sjá mýmörg dæmi um slíkt.