Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 11:34:30 (978)

2001-11-01 11:34:30# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., HBl
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[11:34]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að fagna sérstaklega því frv. sem hér liggur fyrir vegna þess að með því er brugðist við og svarað þeirri hörðu gagnrýni sem komið hefur fram víðs vegar um land, bæði í ræðu og riti, einkasamtölum og annars staðar, um Náttúruverndarráð eins og það hefur unnið og eins og hlutverk þess er skilgreint í lögum. Í því sambandi er rétt að vekja athygli á að Náttúruverndarráð skal samkvæmt núgildandi lögum skipað níu mönnum --- umhvrh. skipar að nafninu til fimm þeirra í upphafi náttúruverndarþings en fjórir eru skipaðir að tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands, Háskóla Íslands, Bændasamtaka Íslands og Ferðamálaráðs. Hins vegar skulu fjórir síðan kjörnir á náttúruverndarþing og er athyglisvert í því sambandi að lesa það sem stendur um náttúruverndarþing. Þar segir, með leyfi forseta, í lögunum:

,,Náttúruverndarráð skal semja reglur fyrir hvert náttúruverndarþing þar sem kveðið er á um seturétt á þinginu, kjörgengi og kosningarrétt þingfulltrúa.``

Þannig er þetta allt saman njörvað. Það sem menn hafa m.a. gagnrýnt í þessu sambandi er hversu áberandi einhver lokaður hópur hefur smátt og smátt orðið á náttúruverndarþingum. Oftar en einu sinni hafa menn gefið sig á tal við mig til að lýsa stöðu sinni á þinginu og þeim erfiðleikum sem eru því samfara að eiga þar seturétt.

Með þessu frv., þ.e. með því að ákveða að umhverfisþing skuli koma í staðinn fyrir náttúruverndarþing, er þessi mikilvægi vettvangur fyrir skoðanaskipti um umhverfismál, náttúruvernd, sjálfbæra þróun og annað þvílíkt opnaður. Samkvæmt tillögugreininni eins og hún liggur fyrir í frv. segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Til umhverfisþings skal boða alþingismenn, fulltrúa stofnana ríkisins og sveitarfélaga, fulltrúa atvinnulífs og frjálsra félagasamtaka sem hafa umhverfisvernd og sjálfbæra þróun á stefnuskrá sinni.``

Ég get satt að segja ekki skilið að nokkur alþingismaður geti staðið gegn þessari breytingu. Ég væri satt að segja hálfundrandi á því ef maður hugsar um stjórnmálaflokka hér á hinu háa Alþingi, a.m.k. einn þeirra, ef hver einasti þingmaður þess flokks teldi sig ekki sjálfkjörinn til að sitja slíka ráðstefnu og sætti sig illa við að aðeins einn þeirra kæmist. Hætt væri við að það mundi skapa innanbúðarmál ef ætti að taka þar einn fram yfir annan.

Annars sagði nú hv. síðasti ræðumaður, hv. 6. þm. Norðurl. e., Árni Steinar Jóhannsson, í ræðu sinni --- eins og orðin voru sögð og í því samhengi skildi ég ekki alveg við hvað hann átti: ,,Þetta er stórhættuleg pólitík``. Með leyfi hæstv. forseta: ,,Þetta er stórhættuleg pólitík þegar menn fara að verða sjálfumglaðir.`` Ég áttaði mig ekki á því hvort þetta var sjálfrýni vinstri grænna eða hvort hv. þm. var að reyna að lýsa pólitískum andstæðingum sínum. Þetta gæfi þá kannski í skyn umburðarlyndi hans fyrir því sem aðrir halda fram.

En ég vil sem sagt þakka hæstv. umhvrh. fyrir frumkvæði hennar í þessu máli. Ég efast ekki um að þegar fram líða stundir muni menn vera samdóma um að þetta sé rétt skref, og raunar undrandi á því að það skyldi ekki vera löngu stigið. Ég get bent á eitt atriði enn sem skýrir þetta kannski enn betur. Þegar rætt er um hlutverk Náttúruverndarráðs segir þar í fyrsta lagi, með leyfi hæstv. forseta:

,,Náttúruverndarráð skal stuðla að náttúruvernd og vera umhverfisráðherra, Náttúruvernd ríkisins og öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar um náttúruverndarmál.``

Nú er það svo að ef einhver ætlar að vera öðrum til ráðgjafar hlýtur fullkominn trúnaður að ríkja á milli þess sem ráðin gefur og hins sem eftir þeim leitar. Enginn maður leitar sjálfviljugur ráða hjá einhverjum sem hann getur ekki treyst. Það er öldungis ljóst. En Náttúruverndarráð hefur ekki litið þannig á hlutverk sitt að umhvrh. eða önnur stjórnvöld hafi getað leitað til þess í hljóði og ætlast til trúnaðar um það sem fram fer á milli Náttúruverndarráðs og ráðherra. Þvert á móti hefur Náttúruverndarráð gert athugasemdir við ýmis embættisverk ráðherra, oft með ósanngjörnum hætti og oft líka með þeim hætti, bæði í framsetningu og efnistökum, að ýmsir aðilar úti í þjóðfélaginu hafa ekki fundið þar það umburðarlyndi fyrir skoðunum sínum og framlagi til umræðunnar sem ætlast verður til af þeim sem vilja stýra og vera höfuð þeirrar umræðu, sem ætlað er að leita sátta um það hvernig við getum umgengist náttúruna svo hún geti gert hvort tveggja í senn, hjálpað okkur til að framfleyta okkur hér á landi og líka verið til yndis og ánægju þegar svo ber undir.

Auðvitað er höfuðkrafan til þess sem vill vera öllum til ráðuneytis og ráðgjafar um hvernig staðið sé að þessum málum að til hans sé borið traust og menn finni að hann vilji koma fram í friðarhug og af umburðarlyndi. Ég held því fram að Náttúruverndarráð, ef við skoðum söguna, hafi ekki uppfyllt þessa kröfu nema --- svo ég haldi nú öllu til skila og sé fullkomlega sanngjarn --- þegar Eysteinn Jónsson, formaður Framsfl., var formaður Náttúruverndarráðs. Hann hafði auðvitað víðsýni til að bera, þekkingu á landi og náttúru, sem olli því að á hans tíma skipti Náttúruverndarráð miklu meira máli í þjóðfélagsumræðunni og í sambandi við margvíslega ákvarðanatöku heldur en síðan hefur orðið, eins og þeir muna sem þekkja söguna og vita hvernig hann vann í Náttúruverndarráði.

Þannig var til Náttúruverndarráðs stofnað í upphafi, þ.e. í þeim anda og með þeirri hugsun sem Eysteinn Jónsson á þeim tíma mótaði með störfum sínum og afstöðu. Því miður hafa mörg vötn runnið til sjávar síðan þá og það sem hér er verið að gera er í raun ekki annað en að stíga seinna skrefið, fyrra skrefið var stigið með lagabreytingunni 22. mars 1999 og hér er verið að stíga síðara skrefið vegna þess að Náttúruverndarráð og náttúruverndarþing, eins og hlutverkum þeirra er nú háttað, hafa ekki staðið undir þeim vonum sem menn gerðu á þeim tíma til þeirra breytinga sem þá urðu. En auðvitað --- það vita engir betur en þeir sem eru sannir umhverfissinnar og vilja í raun og veru vernda land sitt, þeir skilja betur en allir aðrir --- er þýðingarmikið að í þjóðfélaginu sé vettvangur sem allir geta treyst og sótt til sem þangað eiga erindi. Það á ekki að vera einhver þröngur hópur sem ákveður kjörgengi manna og kosningarrétt til slíks þings.

Það er þessi opnun á umræðunni um umhverfismálin sem umhvrh. hefur nú forgöngu um og er þakkarvert. Við hér á hinu háa Alþingi eigum að meta þetta skref en ekki að vera með einhverjar dylgjur um að þvílíkur tillöguflutningur beri vott um sjálfumgleði, eins og hér var gert áðan. Það eru engir þingmenn hér inni, sem ég þekki, sem framar öðrum vilja gæta náttúru landsins. Það hefur enginn einn stjórnmálaflokkur einkaleyfi á því að vera náttúruverndarflokkur.

Ef við skoðum sögu þeirra manna sem mest hafa talað um náttúruvernd á síðustu áratugum hér á hinu háa Alþingi, ef við förum aftur til þess tíma þegar menn stóðu hér og héldu langar ræður um það mikla tjón sem álverið mundi valda hér í náttúru Íslands --- voru það ekki þeir sem oftast voru opinberir gestir Austur-Þýskalands? Við vitum hvernig var umhorfs þar eftir að múrinn féll. Bar það vott um að þeir sem heimsóttu það land hefðu haft opin augun fyrir því hvað væri náttúruvernd, hvernig ætti að umgangast fólk, menningarverðmæti og náttúru? Auðvitað ekki.

[11:45]

Það er ekki það sama að þykjast vera náttúruverndarsinni og vera það í raun og veru í hógværð og í lifnaði sínum og skoðunum. Það eru ekki þeir sem hæst gala sem eru mestu náttúruverndarsinnarnir þó úti í náttúrunni megi finna þann sem hæst galar, sem er haninn.

Herra forseti. Eins og þetta mál er hér lagt fram og með þeirri hugsun sem hæstv. ráðherra hefur sýnt er ekki vafi á að frv. er til bóta. Opinberir fjármunir munu nýtast betur en verið hefur og þessi nýja skipan mun, að minni hyggju, leiða til þess að skilningur fyrir andstæðum skoðunum vaxi og verða til þess að umræður í þjóðfélaginu um náttúruvernd, umhverfismál og sjálfbæra þróun séu líklegri til að láta gott af sér leiða en hitt.