Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 12:09:52 (989)

2001-11-01 12:09:52# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[12:09]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það er svo sem allt í lagi að draga skólastjórn mína á Hólum inn í umræðuna. Ég telst reyndar ekki skólastjóri lengur og ég mundi ekki heldur leggja það í vana minn að vera að væna menn um annað en að þeir reyndu að sinna hverju starfi sem best á hverjum tíma.

En ég, herra forseti, sest ekki í það dómarasæti sem hv. þm. Kristján Pálsson gerir hér í ræðustól, að kveða upp úr með að Skipulagsstofnun hafi ekki farið að lögum og hún hafi farið út fyrir lögsvið sitt o.s.frv. Hún vinnur sitt verk eins vel og hún getur og ég frábið mér að hér komi einhver og geti verið dómari í málum og dæmt um hver hafi farið að lögum og hver hafi nú ekki farið að lögum með þeim hætti sem hv. þm. gerði hér.

Hitt er ljóst, og hv. þm. bar ekkert á móti, að meginástæða fyrir því að flytja þetta frv. hér er að ráðið gaf ekki þau ráð og umsagnir sem hentuðu í það og það skiptið. Og það er óbreytt. Og kannski, herra forseti, að hv. þm. geti upplýst um hvað standi næst til að leggja niður sem ekki er ríkisstjórnarflokkunum þénugt, gefur ráð sem ekki passa, því mér sýnist af framgöngu hv. þm. Sjálfstfl. hér að þeir séu greinilega í þeim ham að leggja niður ráð og stofnanir sem gefa ekki þau ráð sem henta sjónarmiðum þeirra.