Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 12:11:59 (990)

2001-11-01 12:11:59# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[12:11]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að hv. þm. er alls ekkert á móti þeim breytingum sem verið er að leggja til hér, að leggja niður Náttúruverndarráð ríkisins. Ég hef a.m.k. ekki heyrt það. Og að náttúruverndarþing verði sett upp á tveggja ára fresti. Það er út af fyrir sig kjarni þess frv. sem hér er til umræðu.

Mér hefur heyrst --- af því að hv. þm. talar um að við eigum ekki að setjast hér í dómarasæti yfir stofnunum ríkisins --- sem hv. þm. Vinstri grænna hafi verið að fella dóma um öll möguleg mál og verið á móti nánast öllu því sem menn hafa hugsað sér að gera í þessu landi sem varðar t.d. umhverfismál, stóriðju, framkvæmdir yfir höfuð, þannig að þeir hafa verið hér í dómarasæti alla daga.

Það er því ekkert óeðlilegt þótt þingmenn Sjálfstfl. hafi skoðun á því hvernig Skipulagsstofnun ríkisins fer með vald sitt og hvort sú stofnun fari að lögum eða ekki. Það hlýtur að vera hlutverk okkar að reyna að kafa ofan í það. Ég hef gert það sjálfur. Ég hef kafað ofan í það og ég segi að þar fór Skipulagsstofnun ríkisins langt út fyrir heimildir sínar samkvæmt lögum, eða fullnægði ekki heimildum sínum samkvæmt lögum. Og því mótmæli ég að sjálfsögðu.

Ég, herra forseti, ætla ekki að fara að teygja lopann. Ég ætla bara að minna á að ríkisstjórnin hefur að mörgu leyti reynt að fara þá leið að auka frjálsræði og efla stofnanir, gera þær sjálfstæðari og efla þær. Þar er Seðlabanki Íslands gott dæmi. Seðlabankinn hefur verið efldur og hann hefur það sjálfstæði núna að stjórna peningamálum landsins og það reynir (Forseti hringir.) verulega á hvernig það gengur. Ég er yfirleitt á þeirri línu að það eigi að styrkja stofnanir frekar en að veikja. En auðvitað getur komið (Forseti hringir.) að því að það eigi ekki rétt á sér.

(Forseti (ÍGP): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða tímamörk.)