Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 12:19:59 (994)

2001-11-01 12:19:59# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[12:19]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði ekki að Náttúruverndarráð hefði ekki komið að gagni. Ég sagði að sá gæti ekki komið til ráðgjafar, til þess að ráðgjöfin sé heil, sem ekki hefur fullan trúnað og ekki sýnir fullan trúnað. Þess vegna var ég að segja að eins og þessi lög eru orðuð hér, 9. gr. laganna, með leyfi hæstv. forseta:

,,Náttúruverndarráð skal stuðla að náttúruvernd og vera umhverfisráðherra, Náttúruvernd ríkisins og öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar um náttúruverndarmál.``

Þessi tilgangur laganna er augljós eftir orðanna hljóðan þeim sem skilja mælt mál en kalla ekki náttúruverndarsinna öfgasinna eins og hv. þm. gerði áðan. Af þessu er ljóst til hvers er ætlast af ráðgjafanum. Nú hefur Náttúruverndarráð stundum haft skiptar skoðanir á hinum ýmsu málum. Samt sem áður hefur meiri hlutinn verið mjög harðorður í sínum yfirlýsingum. Ég hef ekkert á móti því að menn lýsi skoðunum sínum en þá hefði verið eðlilegra að þarna stæði að stofnunin skyldi gefa álit eða að stjórnvöld leituðu álits hjá henni. Sá sem á að vera til ráðgjafar verður að sýna trúnað, bæði meðan á málsmeðferð stendur og líka eftir á því að það er ekki hægt að hafa ráðgjafa sem ekki er trúverðugur.

Þetta á hv. þm. að skilja. Hann hefur sjálfur staðið fyrir opinberri stofnun. Hann hefur verið skólastjóri á Hólum. Auðvitað veit hann að þar er nemendaráð og vitanlega varð hann að sýna nemendaráðinu fullan trúnað og fullan skilning. Með sama hætti kemur nemendaráðið ekki sínu til skila nema það sé hollt í leiðbeiningum sínum og viðtölum við skólastjórann. Þetta er bara lítið dæmi.

Ég er að segja að það kemur nýr vettvangur í staðinn fyrir gamlan, umhverfisþing í staðinn fyrir náttúruverndarþing. Það mun hafa breiðari grundvöll og fleiri munu geta sótt það.