Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 12:23:59 (996)

2001-11-01 12:23:59# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., MS
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[12:23]

Magnús Stefánsson:

Hæstv. forseti. Hér er rætt um frv. til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd. Ég ætla ekki að falla í þau hjólför sem menn hafa spólað í að undanförnu í þessari umræðu, þ.e. að karpa um hverjir séu öfgamenn, hverjir séu óþægilegir í umræðunni o.s.frv. Mér finnst þessari umræðu ekki til framdráttar að menn spóli í slíku hjólfari. Ég held hins vegar að það skipti máli að efla málefnalega umfjöllun um umhverfismál almennt.

Ég þykist vita að mikill almennur áhugi sé í landinu fyrir þessum málaflokki hvort sem um er að ræða náttúruvernd eða eitthvað annað sem lýtur að umhverfismálum.

Í frv. sem hér er til umræðu er kannski stærsti liðurinn sá að lagt er til að leggja niður Náttúruverndarráð. Því fylgir að verið er að vinna að því að efla og styrkja vettvang frjálsra félagasamtaka sem láta umhverfismál til sín taka og að þau félagasamtök sem til eru --- þeim hefur fjölgað mjög undanfarin ár í þessum málaflokki --- taki að hluta til til sín verkefni Náttúruverndarráðs í umfjöllun um umhverfismál. Síðan er lagt til að byggt verði upp umhverfisþing.

Síðan kemur fram í frv. að í stað þess að ríkissjóður leggi til Náttúruverndarráðs tilteknar milljónir til að standa undir starfsemi þess, verði þeim fjármunum að hluta til varið til frjálsra félagasamtaka. Ég tel þetta mjög til bóta og í raun eðlilega framþróun í þessum málum.

Það hefur margoft komið fram í umræðum um umhverfismál að þessum félagasamtökum hefur farið fjölgandi og þau hafa verulega látið til sín taka. Þess vegna er jákvætt og eðlilegt að styrkja þau til þess að fjalla um þessi mál og byggja upp eðlilegt og faglegt samstarf milli félagasamtakanna og stjórnvalda um umhverfismálin. Það er mín skoðun að þannig takist okkur best að efla málefnalega umræðu um umhverfismálin þjóðinni til farsældar til framtíðar, því að það er það sem skiptir máli.

Í frv. er lagt til að byggt verði upp umhverfisþing þar sem koma að ýmsir aðilar til að fjalla um umhverfismál á víðum grundvelli, um umhverfismál og náttúruvernd og sjálfbæra þróun, sem er eitt af grundvallaratriðum okkar þjóðar til framtíðar, þ.e. að nýting náttúruauðlinda verði sjálfbær, og síðan verði fjallað um aðgerðaáætlun um sjálfbæra þróun. Ég tel að þetta sé mjög málefnalegt og af metnaði lagt fram af hæstv. umhvrh.

Segja má, eins og reyndar hefur komið fram í þessari umræðu, að ýmsar breytingar hafa orðið á starfsumhverfi Náttúruverndarráðs frá því að það var stofnað á sínum tíma. Hér hafa komið til ýmsar ríkisstofnanir, m.a. Náttúruvernd ríkisins sem er stór og öflug stofnun sem fjallar um umhverfismál og það hafa orðið ýmsar aðrar breytingar á þessum vettvangi fyrir utan þessi félagasamtök sem hafa sprottið upp eins og ég nefndi áður. Því er það ekki neitt náttúrulögmál að ekki megi hrófla við skipan þessara mála, að ekki megi hrófla við Náttúruverndarráði, t.d. miðað við þær breytingar sem orðið hafa. Við verðum að vera opin fyrir því að gera þær breytingar sem við teljum eðlilegar og nauðsynlegar til framdráttar þeim málflokki sem hér um ræðir, umhverfismálunum. Það er skylda okkar að gera það.

Eins og ég sagði í upphafi ætla ég ekki að falla í það hjólfar að karpa um hverjir séu öfgamenn og hverjir ekki. Ég vil hins vegar segja að mér finnst stjórnarandstaðan í umræðunni hafa gert hæstv. umhvrh. upp forsendur fyrir frv. Þar hafa hv. þm. stjórnarandstöðunnar lagt til grundvallar það sem fram hefur komið hjá öðrum stjórnarþingmönnum. Ég vil leyfa mér að vara menn við því að falla í slíkar gryfjur. Í framsögu hæstv. ráðherra færði hún fullkomin rök fyrir frv. Ég sé enga ástæðu til að hv. þm. stjórnarandstöðunnar leggi sig fram um að snúa út úr þeim forsendum sem hæstv. ráðherra lagði til, út frá umræðu sem hefur verið hér í morgun. Hæstv. ráðherra ber fram frv. og hún hefur gert grein fyrir forsendum þess. Því er alger óþarfi fyrir hv. þm. að snúa út úr því.

Mér hefur fundist hv. þm. Samfylkingar nálgast málið með jákvæðari afstöðu, með ábendingum um einstök atriði sem fjalla þarf um í umhvn. og að sjálfsögðu gerum við það. Ég tók eftir því að einn hv. þm. Vinstri grænna fann hálmstrá þannig að hann gæti verið á móti, sem er þeirra háttur, þ.e. að fyrst beri að staðfesta Árósasamninginn. Ég ætla í sjálfu sér ekki að gera lítið úr þeirri afstöðu, en mér finnst, svo ég leggi mat á það, það kannski ekki fullkomin ástæða til þess að fresta þessu máli. Ég er ekki sammála því.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa öllu fleiri orð um frv. Ég vil bara ítreka að mér finnst í frv. lögð til fullkomlega málefnaleg og eðlileg þróun mála, þ.e. að leggja niður Náttúruverndarráð, efla frjáls félagasamtök sem fjalla um umhverfismál og efla umhverfisþing, þar sem hinir ýmsu aðilar munu koma að málum varðandi umfjöllun um umhverfismál. Ég held að þannig takist okkur að efla málefnalega umræðu um umhverfismálin. Að því eigum við auðvitað að stefna og að því er hæstv. umhvrh. að vinna með framlagningu þessa frv.