Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 12:31:04 (997)

2001-11-01 12:31:04# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[12:31]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu sem hv. þm. Magnús Stefánsson kom með um að framsóknarmenn ætluðu að fara að efla og víkka út umræðuna um umhverfismál. Það er verulegt fagnaðarefni. Ég vona að það gerist með frjóum hætti.

Það sem vakti athygli mína, herra forseti, voru þau orð hv. þm. að ekki væri samhljómur milli rökstuðnings hæstv. umhvrh. fyrir frv. og þeirra hv. þm. Sjálfstfl. sem hér hafa beitt sér mjög ákaft í umræðunni um nauðsyn þess að leggja Náttúruverndarráð niður. Rökin sem þeir færðu voru alveg skýr, að Náttúruverndarráð hefði ekki gefið þau ráð eða þær umsagnir sem væru stjórnvöldum þénug. En hitt er alveg hárrétt hjá hv. þm. að hæstv. ráðherra gat þess ekki í framsögu sinni.

Ég leyfi mér að spyrja: Er ágreiningur á milli stjórnarflokkanna um rökstuðning og tilurð þessa frv.? Eins og hann birtist hér í þingsölum er greinilega um grundvallarágreining að ræða.