Náttúruvernd

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 12:43:23 (1004)

2001-11-01 12:43:23# 127. lþ. 19.1 fundur 159. mál: #A náttúruvernd# (Náttúruverndarráð o.fl.) frv., 160. mál: #A umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur# (gjald til Náttúruverndarráðs) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[12:43]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það gengur illa að fá þingmenn Vinstri grænna til að svara því hvort þeir vilji hafa skipan umhverfisþings með þeim hætti sem segir í 4. grein. Nú skiptir ekki máli hvað þetta þing heitir, hvort það heitir umhverfisþing eða náttúruverndarþing eins og ég sagði áður, ég er að tala um skipan þingsins, skipan þessa umræðuþings. Og ég hef sagt að náttúruverndarþingið eins og það er ákveðið í lögum sé of þröngt. Það er það sem ég hef verið að tala um. Þess vegna þykir mér undarlegt að þingmenn Vinstri grænna sem eru að tala um að þeir vilji opna umræðu um umhverfismál í þjóðfélaginu skuli ekki fagna því að opna eigi leið fleiri aðila inn á slíkt þing. Ég er satt að segja mjög undrandi á því að þingmenn Vinstri grænna skuli ekki gera það.

Í annan stað er nú ekki nýtt að sumir stjórnmálamenn skuli vilja bregðast við gagnrýni úti í þjóðfélaginu. Ég vona að ég verði aldrei svo mosagróinn hér að ég hugsi ekki um þá gagnrýni sem berst úr þjóðfélaginu hingað inn í þennan sal. Það ætla ég að vona ekki.

Í þriðja lagi. Það má nú vel sjá það á borgarstjórn Reykjavíkur eftir að R-listinn kom til starfa á eftir Sjálfstfl. hvorir eru meiri umhverfissinnar á höfuðborgarsvæðinu, Sjálfstfl. þegar hann var við völd eða Vinstri grænir. Við sjáum hvað er að gerast nú, þá hörðu gagnrýni sem dynur á borgarstjóra og borgarstjórnarmeirihlutanum vegna þess hvernig þeir ganga um land höfuðborgarinnar. Það er svo sannarlega ekki til eftirbreytni og slíkur sóðaskapur í umhverfismálum hefur aldrei komið fyrir í áratugasögu Sjálfstfl. í meiri hluta borgarstjórnar Reykjavíkur. (JB: Við stjórnum ekki borginni.)