Leigubifreiðar

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 13:44:49 (1015)

2001-11-01 13:44:49# 127. lþ. 19.3 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[13:44]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Það frv. til laga sem hæstv. samgrh. mælti hér fyrir er nú flutt í annað skipti. Við sem sitjum í samgn. unnum við þetta mál á síðasta þingi. En á síðustu dögum þingsins í vor og í ákafanum, vil ég segja, við að koma þingmönnum heim þannig að engin hætta væri á að hið háa Alþingi færi að ræða um fiskveiðistjórnarlög og smábáta sem þá voru mikið í deiglunni, datt málið út af borðinu og er því endurflutt.

[13:45]

Eins og fram hefur komið er megintilgangur frv. að færa þennan málaflokk frá samgrn. til Vegagerðarinnar. Það verður að segja alveg eins og er, herra forseti, að á fundum samgn. varð maður þess mjög áskynja að deilur hafa staðið um þessi mál, alveg eins og maður sá glampa í augum samgönguráðuneytismanna yfir því að málaflokkurinn yrði sendur til Vegagerðarinnar. Frumvarpið var töluvert rætt þegar það var flutt á síðasta þingi en samt sem áður er ástæða til að fara um það nokkrum orðum.

Ég vil því fyrst spyrja hæstv. samgrh. út í það hvort hann telji að þetta lagafrv., eins og það er lagt hér fram, standist samkeppnislög og hvort það mundi fá stimpil þar og fara þar í gegn, því að auðvitað er verið að mismuna hér. Verið er að setja á miðstýrt kerfi í þessum málaflokki eins og svo mörgum öðrum og þess vegna vildi ég spyrja út í þetta atriði.

Fram hefur komið að um 670 leyfishafar hafa réttindi til leigubílaaksturs um þessar mundir og langflestir eru á höfuðborgarsvæðinu. Því má segja að þessi lög séu fyrst og fremst sett út af málaflokknum eins og hann hefur þróast hér og e.t.v. deilum milli stéttarfélaga, en ég ætla ekki að fara meira út í það.

Það er sem sagt gert ráð fyrir að útgáfa starfsleyfa bifreiðastöðva, útgáfa atvinnuleyfa, útgáfa leyfa fyrir forfallabílstjóra og námskeiðahald falli undir Vegagerðina. Einnig er fjallað aðeins um heimildir til undanþágna sem ég ætla að koma að síðar.

Í 1. gr. er fjallað um það hverjir skuli kallast leigubílstjórar og við höfum jú áður rætt um hverjir eru sendibílstjórar o.s.frv. Í umræðum manna hefur komið fram að þarna sé ýmislegt á gráu svæði. Í frv. kemur fram að leigubílstjórar geti flutt, eins og sagt er, blóm og bréf og hafi gert það og þannig eigi það að vera áfram.

Ég er í sjálfu sér ekkert að agnúast neitt út í það, síður en svo. Leigubílaakstur er nauðsynlegur í samgöngukerfi Íslendinga, en ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. samgrh. hvort ekki sé þarna mismunun á hvort leigubílar flytji blóm, bréf og pakka eða hvort sendibílar flytji blóm, bréf og pakka. Um þetta er spurt út af virðisaukaskattsskyldri þjónustu og hefði ég gaman af að heyra frá hæstv. samgrh. um þetta á eftir.

Í umsögnum og álitum sem komu til hv. samgn. síðast stóð það upp úr hjá mjög mörgum af þessum hagsmunaaðilum að þeir vildu færa undanþáguheimildirnar til stöðvanna. Gert er ráð fyrir því hér og ekkert nema gott eitt um það að segja að það sé gert. Það verður kannski örlítið minni miðstýring á þessu en ella hefði verið. Og sannarlega má segja að það sé rétt að færa þetta nær stöðvunum, nær þeim sem reka stöðvarnar vegna þess að það komu líka fram kvartanir frá nokkrum aðilum síðast yfir því að þeir sem stunda þennan rekstur ættu erfitt með að komast í gegn með það að láta aðra keyra bíla sína ef um veikindi væri að ræða eða eitthvað þess háttar. Það er náttúrlega alveg út í hött að það skuli vera þannig ef leigubílstjóri veikist eða veikindi í fjölskyldu hans geri það að verkum að hann getur ekki stundað atvinnu sína eins vel og hann hefði annars gert. Auðvitað á hann ásamt stöðinni sem hann keyrir á að hafa meira sjálfræði um hvernig það skuli fara.

Herra forseti. Einnig er fjallað um gæðastaðla. Ég held að það sé hið besta mál fyrir alla, bæði notendur þessarar þjónustu, almenning í landinu, svo og leigubílastöðvarnar sjálfar. En sú spurning kom upp í huga minn: Hvað með minni stöðvarnar? Getur þetta gert það að verkum að við gerum minni stöðvunum erfiðara fyrir um rekstur sinn?

Það er nú svo í þessari grein, þó að ég sé ekki að tala fyrir algjöru frjálsræði, enda lesum við það í frv. að það hafi ekki alls staðar gengið vel, ég er ekki að tala fyrir því, en ég held hins vegar að það sé mjög nauðsynlegt að þetta sé á fleiri en einni hendi, að þetta snúist ekki upp í algjöra einokun hvað það varðar og vildi því spyrja út í þetta.

Í sambandi við skilyrði fyrir atvinnuleyfi eins og fjallað er um í 5. gr. og tilskilin námskeið sem fjallað er um í reglugerð --- frv. ber það með sér að samgrh. mun setja mikið af reglugerðum í framhaldinu. Vegagerðin á að standa fyrir námskeiðum, þá getur Vegagerðin náttúrlega samið við aðra aðila, við skulum segja t.d. ökukennarafélagið um að halda slík námskeið, Vegagerðin getur að sjálfsögðu haldið þau líka. En þetta eru atriði sem ber að skoða og vert er að hafa í huga, og sérstaklega gagnvart eldri mönnum sem hafa kannski unnið við akstur allt sitt líf og að þeir verði ekki felldir burtu með einhverjum námskeiðum, þó svo að það megi að sjálfsögðu í þessu eins og ýmsu öðru hafa ákveðnar skoðanir á því hve lengi leigubílstjórar eigi að keyra, hvort það eigi að vera til sjötugsaldurs eða 76 ára eins og gert er ráð fyrir hérna.

Herra forseti. Í 2. tölul. 5. gr. er talað um eignarhald á bifreið og 35% eignarhlutdeild er sett sem lágmark. Ég stoppaði aðeins við þetta vegna þess að tímarnir hafa breyst mikið. Menn eru jafnvel að keyra á bílum sem umboðin eiga og borga fyrir það ákveðið gjald, þar með talinn stóran hluta af rekstrarkostnaði. Mun frv. gera leigubílstjórum það algjörlega ókleift að gera þetta þannig? Ég veit ekki hvort það er endilega til góðs eða ills. En það kom upp í huga mér að í svona sérlögum sem sett eru, að ekki eru t.d. lögfræðingar skyldugir til að sýna fram á eignarhald af húsnæðinu sem þeir eiga eða verslunareigandinn að verslunarhúsnæðinu sem hann verslar í, ekki 35%, ekki 50% eða neitt. Hvers vegna er þessi prósentueignarhlutdeild sett þarna inn? (Gripið fram í: Þeir geta ... bílana.) Herra forseti. Ég varð ekki þess var að ráðherrann hefði gengið úr salnum. En hann heyrir þetta. (Samgrh.: Og heyrir vel.) Og heyrir vel með báðum eyrum þannig að það er gott. (Samgrh.: Stundum allt of vel.) Og stundum allt of vel, segir ráðherrann. En ég stoppaði aðeins við þetta atriði og vildi heyra skýringar hæstv. ráðherra á hvers vegna þessi 35% eignarhlutdeild kemur þarna inn og hvort við erum ekki í raun og veru að mismuna á milli starfsstétta í landinu hvað þetta varðar. Hvers vegna er þetta sett inn? Eins og ég nefndi áðan vil ég ítreka að lögfræðingunum, sem e.t.v. fást einhvern tíma við að fjalla um þetta frv. og reka mál, er ekki gert skylt að eiga skrifstofuhúsnæðið sem þeir starfa í, ekki 35% og ekki 100%. Hvers vegna er þetta svona? Þetta snýst því dálítið mikið um jafnræði milli atvinnustétta.

Um takmörkunarsvæðin er svo sem ekki mikið að segja. Það er náttúrlega fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu sem þetta virkar. Það má eiginlega spyrja þegar þessi grein er skoðuð, þ.e. 8. gr.: Hvers vegna í ósköpunum er þessi málaflokkur ekki bara hreinlega á valdi sveitarfélaganna? Af hverju þurfum við að vera með ,,stóra bróður``, ríkisvaldið, í þessu og Vegagerðina? Af hverju er þetta ekki bara fært til sveitarfélaganna og sveitarfélögin fái sjálf að fást við þetta? Það eru vafalaust einhver rök fyrir því að það sé betra fyrirkomulag sem þarna er lagt til en sveitarfélögin hafa töluvert mikið um þetta að segja, um fjölda bifreiða í leiguakstri o.s.frv.

Það má t.d. spyrja hæstv. ráðherra út í þessi takmörkunarsvæði: Mun þetta takmörkunarsvæði kannski bara stækka þannig að það verði ekki í Reykjavík heldur bara allt svæðið? Ég man eftir því að einn nefndarmaður í samgn., hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir, spurði út í það í framhaldi af verkfalli sem var þá og deilum sem menn lentu í milli Suðurnesjamanna og Reykvíkinga út af því svæði. Getur samgrh. kannski sett það í reglugerð að þessi takmörkunarsvæði stækki?

Hér er einnig fjallað um heimild fyrir eftirlifandi maka eða dánarbú varðandi atvinnuleyfið, sem mér finnst alveg sjálfsagður hlutur að þarna sé inni. Spurning um hvort það verði þrjú ár eða ekki, það verður væntanlega rætt betur í nefndinni þegar að því kemur.

Síðan kem ég að 12. gr. sem er um leyfisgjöld. Það er ástæða til að óska hæstv. samgrh. til hamingju með þetta gjald sem þarna er komið á. Þarna er með öðrum orðum búið að búa til enn einn skattinn, leigubílaskatt. Ég sá það í gögnum sem okkur voru send síðast að í upphafi var áætlað að þessi leigubílaskattur yrði 8 þús. kr. þegar kynnt var fyrir hagsmunaaðilum að hæstv. samgrh. hygðist leggja frv. fram. Þegar frv. kom fram var gjaldið 16 þús. kr. og greinilegt að þá átti að ná í meiri peninga úr greininni en kostnaður hins opinbera yrði við að hafa þetta. Áður fyrr var það 5 þús. kr. í eitt skipti, nú er það komið í 13 þús. Það má kannski segja sem svo að töluverður árangur hafi náðst í þeirri gagnrýni sem við nokkrir þingmenn höfðum um þetta málefni og bentum á þetta, vegna þess að auðvitað er það svo að þetta gjald fer fyrr eða síðar beint út í verðlagið og hækkar þessa þjónustu til neytenda. Það er bara eðli málsins samkvæmt.

En e.t.v. má segja að þessi leigubílaskattur sé í takt við samþykkt landsfundar Sjálfstfl. í sjávarútvegsmálum, að þetta sé takmarkaður, hóflegur leigubílaskattur, hóflegt auðlindagjald.

En ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. samgrh. út í það hvað kostnaður samgrn. lækkar við það að málaflokkurinn fari frá samgrn. til Vegagerðarinnar. Kemur ekki til niðurskurðar í samgrn. að sama skapi eða er þetta ekki bara tilflutningur á fjármunum frá samgrn. til Vegagerðarinnar? Það hlýtur að vera þannig. Ég bendi aðeins á að Neytendasamtökin vöruðu við þessum skatti og kváðu það eðli slíkra skatta að fara þráðbeint út í verðlagið.

Ef 670 atvinnuleyfi eru í gangi, þá eru þetta í kringum 8,7 milljónir og önnur gjöld þarna til og frá, þessir 2.500-kallar og þúsundkallar fyrir að leggja inn leyfi og þúsundkall fyrir að taka út leyfi, þetta mun vafalaust fara í um 11 millj. kr. á ársgrundvelli. Það er kannski svolítið í takt við það sem fjallað er um hér að sé þessi kostnaður. Fjárlagaskrifstofa gerir reyndar ráð fyrir að hann sé í kringum 9 millj. kr.

Herra forseti. Ég sagði áðan að vafalaust er margt og sennilega flest af þessu til bóta þegar frumvarpið er lesið þó að menn geti sett spurningarmerki við sumt eins og ég hef verið að gera, t.d.: Hvers vegna Vegagerðin en ekki sveitarfélögin? Og annað slíkt. Eðli þessara laga, ef frv. verður samþykkt, er slíkt að mikið reglugerðaflóð verður í framhaldi af þeim. Og það er eiginlega sígild spurning hvort ekki væri ástæða til að hluti af þeim reglugerðum hefði fylgt hér með þannig að menn hefðu séð hvernig ætti að framkvæma þetta. Margt af þessu er til bóta.

Ég gleymdi því áðan þegar ég var að tala um leyfisgjöldin, að ef menn komast að þeirri niðurstöðu að 13 þús. kr. sé hóflegur leigubílaskattur, þá leyfi ég mér að efast um að þetta sé hóflegur leigubílaskattur á fjölmörgum minni stöðum úti á landi. Ég hef einfaldlega þá sýn, herra forseti, að ég tel að sama gjald eigi ekki að vera á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi. Ég spyr t.d. hvort mikill rekstrargrundvöllur sé fyrir rekstri leigubíls á Þórshöfn eða Raufarhöfn, svo ég taki dæmi. En vafalaust þarf sú þjónusta að vera fyrir hendi fyrir ferðamenn og aðra. En er það sanngjarnt mál að þeir séu að borga sama gjald og hinir sem starfa á höfuðborgarsvæðinu og hafa miklu betri, sem betur fer, möguleika að ná sér í miklar tekjur og lifa af þessu starfi?

Það sem er e.t.v. nýtt, ef ég hef lesið rétt, við frv. eins og það lítur út nú og eins og það leit út þegar við ræddum það fyrir u.þ.b. ári, er að undanþáguheimildin mun fara til stöðvanna og það er breyting frá því sem lagt var fram þá og er breyting í takt við það sem fulltrúar hinna fjölmörgu leigubílafélaga nefndu í samgn. þegar þeir komu þangað.

Einnig má spyrja hvort eðlilegt sé að það vald sem sett er með opinberum reglum sé fært þannig frá hinu opinbera til rekstraraðila, í þessu tilfelli leigubílastöðva. Er það eðlilegt og stenst það alla eðlilega stjórnsýslu að svo sé eða geta menn verið reknir til baka með einhvern hluta af þessu seinna meir? Ég spyr aðeins um þetta vegna þess að mig minnir að lögfræðingur Hreyfils, held ég, stærsta félagsins, hafi einmitt nefnt þetta og spurt um það í umsögn um frv. eins og það var síðast.

Herra forseti. Ég hef aðeins farið í gegnum frv. eins og það liggur fyrir og lagt nokkrar spurningar fyrir hæstv. samgrh. Eins og fram hefur komið á ég sæti í hv. samgn. Þangað mun frv. koma og hv. samgn. undir forsæti nýs formanns, hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar, mun vafalaust senda frv. til umsagnar og gefa mönnum kost á að koma til fundar við nefndina og ræða þetta eins og það liggur fyrir. Ég bíð spenntur eftir þeim heimsóknum og viðtölum sem við munum eiga og sjá hvort ekki hefur orðið bragarbót á frv. frá því sem það var í fyrra og það verði þá kannski í átt til þess að skapa meiri sátt um það vegna þess að það eru auðvitað bestu lögin ef ríkisvaldið, alþingismenn og þeir sem eiga að vinna eftir þeim, hagsmunaaðilarnir og aðrir, eru sáttir við þau. Þá hefur okkur e.t.v. tekist vel til.