Leigubifreiðar

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 14:25:12 (1018)

2001-11-01 14:25:12# 127. lþ. 19.3 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv., KF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[14:25]

Katrín Fjeldsted (andsvar):

Herra forseti. Aðeins til að skýra nánar hvað ég átti við með að mér fyndist æskilegt að sveitarfélögin tækju við þessu verkefni. Það kom fram í máli mínu að þorri bílstjóranna er á þessu svæði, á sjötta hundrað, og mér finnst þurfa að kanna hvort sveitarfélagið Reykjavík vill ekki taka að sér þetta verkefni.

En þegar maður hugsar um landsbyggðina og veltir fyrir sér stöðum þar sem eru færri, og kannski örfáir, bílar er ekkert ólíklegt að heimamenn gætu haft miklu áhrifameira eftirlit með þeirri starfsemi heldur en miðlæg stöð, t.d. Vegagerðarinnar.

Ég verð að segja að mér finnst ekki útilokað að lítil sveitarfélög taki að sér slík verkefni ef gengið er út frá því að settur sé ákveðinn gæðastaðall sem er vitað að eigi að fara eftir. Síðan þyrfti að kortleggja hvernig það yrði gert og síðan væri eftirlit lögreglu á staðnum með því að farið væri að lögum eins og gert er með önnur lög. Ég sé þannig í rauninni ekkert á móti því að þetta fari til sveitarfélaganna ef þau óska eftir því þótt þau séu smá.