Leigubifreiðar

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 14:54:04 (1026)

2001-11-01 14:54:04# 127. lþ. 19.3 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[14:54]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Aðeins bara rétt í lokin á þessari ágætu umræðu og skoðanaskiptunum sem hér hafa verið um þetta mál. Það er rétt sem hæstv. samgrh. sagði, að lengi má gott bæta. Hann fjallaði aðeins í ræðu sinni um leyfisgjöldin eða leigubílaskattinn og benti á að frá 16 þús. kr. sem var í frv. þegar það var lagt fram í fyrra hafi gjaldið dottið ofan í 13 þús. eftir að kostnaðurinn við leyfin var endurreiknaður að hans beiðni. En í upphaflegu tillögunum sem voru sendar út frá samgrh. var gert ráð fyrir 8 þús. kr.

Þá er spurningin þessi: Hvers vegna er þessi 5 þús. kr. munur þarna sem gefur um það bil 3 millj. --- hafa menn verið að vanreikna eða ofreikna gjaldið sem Vegagerðin mun fá fyrir með þetta?

Herra forseti. Ég tók einnig eftir því að hæstv. samgrh. svaraði ekki spurningu um kostnaðinn sem hefur verið í samgrn. hingað til um þetta --- en hann hefur verið töluverður --- sem þá lækkar og fellur niður, hvort ekki hefði verið þarna frekar um tilfærslu að ræða.

Svo rétt í lokin. Telur hæstv. samgrh. --- miðað við þær upplýsingar sem hv. formaður samgn., Guðmundur Hallvarðsson, las upp áðan um fjölda leigubíla á hinum ýmsu stöðum, hvort sem það er nú Kópasker, Hrísey eða hvar það nú er --- koma til greina að það gjald sem rætt er um þarna verði hreinlega fellt út í þeim sveitarfélögum sem eru með 10 þúsund íbúa eða færri? Ég nota þá tölu, 10 þúsund íbúa eða færri, vegna þess að sú tala er notuð á öðrum stað í frv. Telur hæstv. samgrh. það koma til greina að þetta leyfisgjald hreinlega falli út á þessum stöðum?