Póstþjónusta

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 15:31:45 (1032)

2001-11-01 15:31:45# 127. lþ. 19.4 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[15:31]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni að ekki er um neinar stórkostlegar grundvallarbreytingar að ræða á löggjöfinni, enda ekki langt síðan við fengum heildarlöggjöf um póstmálin. En engu að síður er verið að bregðast við breyttum aðstæðum á þessum markaði, en ekki síst að búa þannig um hnútana að það sé alveg ljóst hvaða kröfur við viljum gera til þeirrar þjónustu vegna m.a. skipulagsbreytinga. Við þurfum að sjá til þess að þjónustan skerðist ekki, hún verði örugg eftir sem áður, þrátt fyrir skipulagsbreytingar og þrátt fyrir að póstþjónustan sé falin öðrum aðilum, eins og við höfum verið að gera. Allt þarf að þróast.

Hvað varðar aðalerindi hv. þm. upp í pontuna, spurninguna um hvort verið sé að búa í haginn vegna sölu á Íslandspósti hf., þá liggur það alveg fyrir að ekki er verið að því. Íslandspóstur er ekki til sölu. Við erum að bregðast við breyttum aðstæðum og erum að tryggja að þetta mikilvæga þjónustufyrirtæki okkar Íslendinga sinni sem allra best, þrátt fyrir samkeppni, þeirri þjónustu sem við gerum ráð fyrir að fyrirtækið veiti og á það bæði við um samkeppnishlutann og þann hluta sem varðar einkaréttarframkvæmdir.