Póstþjónusta

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 15:35:04 (1034)

2001-11-01 15:35:04# 127. lþ. 19.4 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[15:35]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú ekki gert ráð fyrir því í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að selja Íslandspóst hf. og engin áform eru uppi um það, eins og ég sagði. Ég held að hver sem vilji minn væri í þeim efnum þá þyrfti fleiri til en samgrh. einan til að ná slíkri niðurstöðu. Og væntanlega yrði það ekki gert án þess að það kæmi fyrir Alþingi. En ég vil endurtaka að þetta frv. sem hér er verið að fjalla um snýst ekki um að selja þetta fyrirtæki og það er ekki á dagskrá. Í stjórnmálum verða menn að taka hvert viðfangsefni eins og það er. Eins og ég fór hér rækilega yfir er ekki gert ráð fyrir breytingum á einkarétti. Hins vegar er gert ráð fyrir að gera strangari og stífari kröfur um þjónustu fyrirtækisins og verið að setja skýran ramma um hvernig við ætlumst til að póstþjónustunni verði sinnt í framtíðinni.