Póstþjónusta

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 15:51:07 (1036)

2001-11-01 15:51:07# 127. lþ. 19.4 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[15:51]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. samgrh. hefur fylgt úr hlaði frv. til laga um póstþjónustu og gerði það myndarlega, m.a. með sögulegu ívafi. Hann hefur einnig gert grein fyrir sjálfu frv. og svo hvernig starfsemi Íslandspósts hefur verið háttað á þessu ári. Það er þakkarvert að fá svo ítarlega og góða ræðu sem hæstv. ráðherra flutti í tilefni af þessu frv.

Herra forseti. Núgildandi lög um póstþjónustu eru ekki gömul, eins og komið hefur fram hér í umræðunni. Þau eru að stofni til aðeins fjögurra, fimm ára gömul. (Samgrh.: Tóku gildi 1. janúar 1997.) Já, tóku gildi 1. janúar 1997, þannig að þau eru þá rúmlega fjögurra ára. Maður gæti haldið að það væri eitthvað sérstakt sem ræki á eftir því að endurskoða svo nýsett lög, eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefur einmitt bent á --- ekki síst vegna þess að gildandi lögum hefur í raun aldrei verið framfylgt. Þar hefur á skort m.a. skilgreiningu á þeirri grunnþjónustu sem með þeim hefur verið ætlað að veita. Maður skyldi halda að það hefði staðið hæstv. samgrh. nær að búa þau lög sem í gildi eru svo út að þau væru uppfyllt. En því fer fjarri, eins og hæstv. ráðherra vék að í síðari hluta ræðu sinnar. Hann gat þess að að frumkvæði ráðuneytisins hafi menn beitt sér fyrir úttekt á stöðu póstþjónustu víða um land þar sem Íslandspóstur hefði breytt þjónustu sinni og ítrekaðar kvartanir borist um að hún væri ekki eins og fólk hefði búist við.

Áður en ég held lengra, herra forseti, vil ég leggja fram þá ósk til hæstv. ráðherra að fá þá úttekt sem hann gat um að þarna hefði verið unnin um ástand póstþjónustu á ákveðnum stöðum á landinu. Hann hafði þessa úttekt undir höndum og ætlaðist til að Íslandspóstur tæki þær athugasemdir til greina og bætti þjónustu sína þar sem á skorti.

Þannig er, herra forseti, að það er eitt að setja lög og annað framfylgja þeim. Ég get ekki séð, herra forseti, að þetta frv. til nýrra laga um póstþjónustu hafi í för með sér nokkuð sem muni auka, bæta eða tryggja póstþjónustuna. Ég get ekki séð það. Hitt er frekar hægt að lesa út úr frv. að þau nýju lög mundu gera mögulegt að skerða póstþjónustuna, hugsanlega á löglegan hátt.

Í gildandi lögum er kveðið á um grunnpóstþjónustu. Aðila sem hefur með hendi grunnpóstþjónustu ber að inna hana af hendi. En þessi grunnpóstþjónusta hefur aldrei verið skilgreind. Það hefur ekki verið skilgreint hvar pósthús skuli starfrækt, hvert skuli vera þjónustustig pósthúsa, hvar skuli vera póstkassar, hvar skuli vera bréfhirðing. Ekkert af þessu hefur verið skilgreint í núverandi grunnþjónustu. Í skjóli þess hefur póstþjónusta um allt land, hér á höfuðborgarsvæðinu og út um allt land, verið skert. Það er skerðing á póstþjónustu ef bréfhirðingarstöðum er fækkað. Það er skerðing á póstþjónustu ef pósthús og póstafgreiðslur stytta opnunartíma og skerða þjónustu og skerða aðgengi. Þessi skerðing á þjónustunni hefur að því er virðist orðið í skjóli þess að ekki er fyrir hendi skilgreining á grunnpóstþjónustu.

Maður gæti haldið að þessi dráttur á að skilgreina grunnpóstþjónustu, sem núna á að kalla alþjónustu, sé einmitt vegna þess að verið er að skera niður og takmarka póstþjónustuna víða um land og breyta eðli hennar. Halda mætti að beðið sé með að skilgreina þessa grunnpóstþjónustu, væntanlega alþjónustu, þar til lægra þjónustustigi er náð til þess að auðvelda rekstraraðilum framkvæmd hennar.

Ekki er annað hægt en að víkja að póstþjónustunni eins og hún er í dag sem hæstv. ráðherra kom hér inn á. Það hafa orðið ítarlegar umræður á Alþingi um hvernig gengið hefur verið fram varðandi póstþjónustu í Skagafirði og Húnavatnssýslum, á Hofsósi, Varmahlíð, Skagaströnd, á Vestfjörðum og víðar um landið.

Það er gleðilegt að menn hafi beitt sér fyrir því nú síðla sumars að gera úttekt á þessari póstþjónustu. En það hafði líka ýmislegt gengið á áður sem lítið hafði verið gert með. Borist höfðu mótmæli, frá hundruðum þeirra sem nýttu sér þessa þjónustu, víða að af landinu gegn þeirri skerðingu sem orðið hafði. Við því var ekki brugðist. Það er dálítið seint að bregðast við því að taka póstþjónustuna út, mörgum mánuðum eftir að gjörningurinn hefur orðið þrátt fyrir allar viðvaranir.

Ég vil því, herra forseti, spyrja hæstv. ráðherra af því að hann kom inn á þetta: Hvað er að gerast í póstþjónustunni á Vestfjörðum? Hvaða pósthúsum er verið að loka þar og hve margir missa atvinnuna í þeirri hrinu sem þar gengur yfir? Hvernig er málum háttað, þegar póstþjónustan er færð milli staða og þjónustunni breytt, með skráningu og móttöku á póstsendingum og hvernig fer með póststimplun? Hvaða þjónusta verður í boði á þessum stöðum?

Ég vil líka vekja athygli á því, herra forseti, að samkvæmt gildandi lögum og því starfsleyfi sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur veitt Íslandspósti er honum óheimilt að framselja þjónustu sína. Honum er t.d. óheimilt að framselja póstþjónustuna í Varmahlíð, á Hofsósi eða Skagaströnd eða hvar annars staðar sem hann rekur hana ekki á sína eigin ábyrgð. Það er skýrt kveðið á um það í 12. gr. starfsleyfisins, með leyfi forseta:

,,Leyfishafa er óheimilt að framselja rétt sinn og skyldur samkvæmt leyfisbréfi þessu. Leyfishafa er þó heimilt að fela dótturfyrirtæki rekstur póstþjónustu að nokkru eða öllu leyti en slík ráðstöfun leysir leyfishafa að engu undan skyldum sínum samkvæmt leyfi þessu.``

Þarna er því að mínu viti skýrt kveðið á um að sú ráðstöfun sem viðgengist hefur hin síðari missiri, þar sem póstþjónustunni ráðstafað til annarra aðila, er algjörlega á svig við lög og starfsleyfi. Ágætt hefði verið að fyrst hefði verið tekið á þessum málum áður en farið væri að setja ný lög.

[16:00]

Það er líka orðið fyllilega tímabært að setja reglur um póstafgreiðslu og móttöku á pósti. Við getum átt von á því, eins og aðrir, að hingað berist póstur sem getur verið hættulegur. Og hver vill hafa slíkan póst þar sem fólk er að kaupa olíu og bensín eða innan um matvörur þar sem fólk er að kaupa inn? Hver vill slíkt?

Mér finnst, herra forseti, eins og þetta hefur gengið og hæstv. ráðherra lýsti, alveg með endemum að ekki skuli þegar vera búið að grípa í taumana og færa til betri vegar. Mér finnst það með endemum.

Og það er ekkert í þessum nýju lögum sem breytir í sjálfu sér þar um. Ekki neitt. Það sveiflast til og það sem áður var kallað grunnþjónusta heitir nú alþjónusta --- það er eina breytingin og mér finnst hún til hins verra. En jafnóskýrt er það og óunnið hver grunnþjónustan er eða þá þessi alþjónusta sem á að veita, og á meðan er hægt að skýla sér á bak við það þegar verið er að skerða þjónustuna.

Ég ítreka því, herra forseti, að það hefði verið miklu nær að hæstv. ráðherra og samgrn. hefðu tekið mark á þeim mörgu athugasemdum, þeim mörgu undirskriftum, fjölmargra þjónustuþega póstsins um að endurskoða og bæta núgildandi þjónustu heldur en að vera að eyða tíma og fyrirhöfn í að breyta lögunum og leggja fram þetta frv. Mér virðist það helst opna fyrir það, eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson kom inn á, að auðvelda sölu eða einkavæðingu á póstþjónustunni í áföngum. Hversu stórir þeir verða er kannski óljóst en samt er ljóst að verið er að opna fyrir einkavæðingu og sölu á þeirri þjónustu beint og óbeint og verið er að rýmka heimildir. Ég hef trú á að fæstir hafi trú á að þetta sé til góðs. Það hefði verið nær að vinna að þessu.

Annars boðar frv. sjálft, herra forseti, ekki miklar breytingar. Það eru þær breytingar, eins og ég segi, að kalla grunnþjónustu alþjónustu sem er alveg jafnloðið meðan það er ekki skilgreint. Og komið er nýtt orð sem heitir afgreiðslustaðir í staðinn fyrir þar sem áður voru pósthús. Það er því opnað fyrir það að geta gefið eftir í þjónustu póstsins vítt og breitt um landið. Við tölum um að auka þurfi möguleika dreifbýlisins, auka möguleika allra á að nýta póstinn, t.d. í póstverslun, bæði til að kaupa vörur í gegnum póst og senda vörur með póstinum. Og það er ekki gert nema að viðhlítandi staðir séu fyrir hendi, móttaka fyrir hendi til þess að það geti gengið greiðlega fyrir sig. Og sú þjónusta er einmitt að skerðast í þeim breytingum sem núna eru um land allt.

Það má nefna eitt atriði enn, herra forseti. Það varðar útburð á póstinum. Afar misjafnlega er staðið að honum. Í flest hús er borinn út póstur reglulega, á allmarga bæi er hann borinn út en við aðra bæi er hann skilinn eftir úti á þjóðvegi, mörg hundruð metra frá bænum. Það er ekkert samræmi í þessari þjónustu eða jafnræði eða jöfnuður. (KPál: Á að fara með hann inn í stofu?) Þess vegna. Það á að vera jafnræði í póstdreifingunni. Allir eiga að fá póst sinn heim en ekki eins og núna er. Sumir fá hann heim reglulega en aðrir ekki. (KPál: Ef maður á heima á 10. hæð, á maður að fá hann upp?) Ég geri ráð fyrir að hv. þm. Kristján Pálsson þurfi að fara inn um dyrnar á neðstu hæð og þar séu uppsettir póstkassar til þess að setja póstinn í í fjölbýlishúsum. Það er alveg ástæðulaust fyrir hv. þm. að gera lítið úr því að þjónusta póstsins eigi að vera jöfn fyrir alla, óháð búsetu.

Varðandi póstleynd. Hér eru jú sömu ákvæðin og ríkt hafa um póstleynd. Og það er afar mikilvægt að póstleynd sé fylgt. Hvernig ætli hún sé einmitt og hvernig ætli þeim ákvæðum hafi verið framfylgt samkvæmt núgildandi lögum? Þessi nýju lög breyta engu þar um. Á mörgum þessara nýju afgreiðslustaða er pósturinn þess vegna ekki í neinni slíkri vörslu að óviðkomandi fólk hafi ekki getað gengið um hann. (Gripið fram í: Hvar er það?) Ekki veit ég betur en að hér hafi verið rekinn póstmannaskóli og það hafi verið talin ástæða til þess að vera með sér námskeið fyrir póstmenn. Og ... (Gripið fram í: Erlendis?) Nei, hér á Íslandi, og það sé mjög brýnt.

En ekki hef ég vitað til þess að í þeim breytingum sem núna er verið að gera hjá Íslandspósti sé lagt upp úr þeirri sérþekkingu sem póstþjónustufólk þarf að hafa án þess að ég sé að gera þeim sem nú fást við þessi störf það upp að þeir gegni starfi sínu ekki af trúmennsku og samviskusemi. En það hefur verið talið nauðsynlegt að þarna væri sérþekking fyrir hendi. Ég tel einmitt að í þessum lögum ætti að vera ákvæði sem lyti að þekkingu á þessu sviði, að námi fyrir starfsfólk í póstþjónustu.

Herra forseti. Í stað þess að eyða tíma í að semja ný lög um póstþjónustuna hefði verið nær að kanna hvernig mætti koma í veg fyrir að aðrar eins hremmingar og viðtakendur pósts urðu fyrir, t.d. fyrir síðustu jól í póstþjónustunni víða um land, ættu sér stað. Ný lög breyta ekki miklu þar um. En það er ekki enn búið að gera neitt í því að skilgreina þessar grunnþjónustukröfur, póstþjónustukröfur, sem er þó kveðið á um í gildandi lögum.

Herra forseti. Ég ítreka að ég tel að það væri miklu nær fyrir hæstv. samgrh. að vinna að því að útfæra þau lög og þær reglur sem nú gilda um póstþjónustu. Hann þyrfti að sjá til þess að þeim sé framfylgt gagnvart landsmönnum öllum og að fyrr og betur sé hlustað á hinn almenna neytanda, hinn almenna íbúa þessa lands, þegar hann ber fram kvartanir sínar yfir þeirri póstþjónustu sem verið er að koma á. Það væri betra að hann hlustaði á þær og brygðist hratt við og bætti þar úr heldur en að leggja mikla vinnu í að búa til nýtt frv. þar sem litlar breytingar eru aðrar en orðalagsbreytingar og rýmkun til þess að geta einkavætt og selt hluta póstþjónustunnar.

Af því að hæstv. ráðherra hvatti mig til að hlusta vel á sig í ágætri ræðu sinni --- sem ég líka gerði --- þá leyfi ég mér að spyrja í lokin: Hefur hæstv. ráðherra hugsað sér að gera gagngerar breytingar á þeirri póstþjónustu sem nú er í boði, t.d. á Hofsósi og í Varmahlíð, og hann minntist á og þá að færa hana til síns upprunalega horfs? Ný og fullkomin hús sem Íslandspóstur á standa jú tóm. Stendur til að taka þessa þjónustu aftur upp og leiðrétta þau mistök sem urðu?