Póstþjónusta

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 16:14:07 (1039)

2001-11-01 16:14:07# 127. lþ. 19.4 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[16:14]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú gott að hv. þm. viðurkennir að frv. hafi tilgang og eigi erindi hingað til þess að tryggja umhverfið í póstþjónustunni.

Vegna orða hv. þm. vil ég segja að það fer ekki á milli mála að af minni hálfu hafa verið gefin hrein og klár fyrirmæli um að bæta úr því sem betur má og á og verður að fara í þeim pósthúsum sem nefnd voru, í Varmahlíð og á Hofsósi. Því miður hefur fyrirtækið sem Íslandspóstur gerði samninga þar við ekki staðið sig. Það liggur alveg fyrir. Úr því verður og á að bæta. Ég hef gert stjórnendum Íslandspósts það alveg skýrt og klárt að ekki verður við það unað að þeir sem gera samninga við Íslandspóst um póstþjónustu standi sig ekki og uppfylli ekki gerða samninga. Það hlýtur að vera í allra þágu og ekki síst í þágu þeirra fyrirtækja sem taka þetta að sér. En ég vil taka það fram að samkvæmt þeirri úttekt sem Póst- og fjarskiptastofnun gerði eru þessir hlutir í býsna góðu lagi sem betur fer. Nefni ég þar sérstaklega sparisjóðina og þær lánastofnanir sem hafa tekið þetta að sér, og fleiri reyndar.