Póstþjónusta

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 16:23:33 (1044)

2001-11-01 16:23:33# 127. lþ. 19.4 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[16:23]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi nefndi ég ekki miltisbrand. Ég nefndi að póstur og póstsendingar pössuðu ekki innan um matvæli í matvörubúðum eða í bensínafgreiðslu. Það gætu líka komið þangað póstsendingar sem gætu verið skaðlegar. Það er alveg hárrétt. En það er margt fleira í þessu.

Víðar urðu hremmingar á póstafgreiðslu fyrir jólin en í Reykjavík. Ég gæti nefnt nokkur dæmi þess. En ég get nefnt eitt dæmi þar sem var gripið til annars ráðs. Það var einmitt á Hofsósi. Það var áður en hagræðingin reið þar í garð að sú manneskja sem sá um póstþjónustuna á Hofsósi fór sjálf á Þorláksmessu og bar út allan póst sem kominn var þótt það væri ekki verkskylda hennar þannig að sem betur fer er til fólk sem leggur á sig þjónustustarf án þess að það sé skilgreint verk þess.

En varðandi það að styrkja póstinn þá er númer eitt að skilgreina þá póstþjónustu sem við ætlum að hafa um allt land þannig að hún sé nákvæmlega skilgreind og að hana ættum við að verja. Best er ... (ÍGP: Það er í frv.) Sko, frv. og lög, ef ekkert kemur á eftir, eru gagnslaus. Samkvæmt núgildandi lögum átti að vera búið að skilgreina þessa grunnþjónustu en það er ekki enn búið. Ég hef ekki trú á því að ný lög leysi þá skyldu af hólmi. Fyrst skilgreinum við grunnþjónustuna og þá þjónustu sem við ætlum að verja og hana ætlum við að verja. Við viljum náttúrlega að hún geti borið sig fjárhagslega. En við ætlum að verja hana gagnvart samfélaginu og það eiga að vera skilaboðin óháð því hvar það er á landinu.