Póstþjónusta

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 16:26:25 (1045)

2001-11-01 16:26:25# 127. lþ. 19.4 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[16:26]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð í viðbót um það frv. til laga um póstþjónustu sem hæstv. samgrh. hefur mælt fyrir. Samflokksmaður minn í samgn., hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, hefur farið ítarlega gegnum frv. fyrir okkar hönd og það mun svo koma til samgn. og verða rætt þar frekar.

En það eru nokkur atriði sem ég vil nefna og e.t.v. hefur umræða um þetta mál snúist töluvert um þjónustu Íslandspósts í hinum dreifðu byggðum landsins sem er eðlilegt.

Meginmarkmið þessa frv. til laga um póstþjónustuna er eins og hér segir í fyrsta lagi að kveða skýrar á um rétt landsmanna til lágmarkspóstþjónustu með því að taka upp hugtakið alþjónusta í stað hugtaksins grunnpóstþjónusta en það hugtak er notað í núgildandi lögum. Ég sé ekki, herra forseti, mikinn mun á því sem þarna er gert. Í 4. gr. segir um alþjónustuna:

Alþjónusta: Póstþjónusta sem landsmenn skulu eiga aðgang að á jafnræðisgrundvelli.

Í 6. gr. er svo farið betur út í það. Það er þetta orð ,,jafnræðisgrundvöllur`` sem ég vil segja að ég bind miklar vonir við varðandi það að snúið verði frá þeirri óheillavænlegu þróun sem átt hefur sér stað með lokun pósthúsa vítt og breitt um landið og svo aftur hvar þau hafa verið vistuð í framhaldi af því. Ég kem aðeins að því síðar vegna þess sem hér hefur komið fram.

Það er kannski rétt að segja strax í upphafi að auðvitað hefur mjög margt í starfsemi Íslandspósts batnað hin síðari ár. Ég nefni t.d. það að sá póstur sem fer í pósthús núna næstu tvær mínútur áður en þeim er lokað verður keyrður vítt og breitt um landið í nótt og verður kominn á viðkomupósthús í flestöllum stærri þéttbýliskjörnum kl. níu í fyrramálið tilbúinn til dreifingar. Auðvitað er þetta frábær og mjög góð þjónusta. Það er vert að taka fram hér. Ég ítreka það og þakka fyrir það. Eins er það góð þjónusta að landpóstar skuli vera farnir að bera út póst fimm daga vikunnar en ekki þrjá daga. En það er rétt að þetta kostar vafalaust peninga.

Það sem ég gerði að umtalsefni um þjónustuna þar sem póstur er keyrður að kvöldi og næturlagi út um landið er mjög gott en það má þá ekki vera þannig að á endastöðvunum sé allt í kaldakoli til að taka á móti póstinum og dreifa honum. Þar á ég sérstaklega við pósthúsin.

Rétt í sambandi við alþjónustu. Er það ekki bara nútímalegt í dag að öll pósthús og allir landsmenn --- við skulum segja flestallir landsmenn --- skuli eiga möguleika á því að fá erlenda pakka senda alla leið á leiðarenda og þeir séu bara hreinlega tollaðir í viðkomandi pósthúsi? Það er gert í gegnum tölvur að sjálfsögðu. Það á ekki að þurfa að vera neitt skilyrði að þetta fari allt saman fram í Reykjavík. Það var mjög góð þjónusta úti um allt land eins og þetta var gert fyrir tveimur, þremur árum síðan og auðveldaði fólki að nota þessa þjónustu. En henni hefur mikið verið breytt. Ég vissi --- ég vona að það hafi eingöngu verið fyrstu skref, byrjunarörðugleikar --- að þegar þessu var breytt, tók heldur betur langan tíma að koma pökkunum frá viðkomandi pósthúsi, frá póststöð í Reykjavík og út á land. Það gat tekið langan tíma. Vonandi er það liðið.

[16:30]

Herra forseti. Það segir í frv. að hæstv. samgrh. skuli í reglugerð kveða nánar á um jafnræðisgrundvallarþjónustuna, þ.e. um nánari útfærslu á þessari alþjónustu. Þar inn kemur vonandi, ásamt því sem hæstv. ráðherra hefur sagt frá, skýlaust ákvæði í póstlögum um að Póst- og fjarskiptastofnun kveði á um hvaða lágmarkskröfur skuli gera til pósthúsa úti á landi. Það er auðvitað hið besta mál og nauðsynlegt. Eins og hér kom fram fram hefur hæstv. ráðherra skoðað póstþjónustuna í Varmahlíð og á Hofsósi og fundist hún fyrir neðan allar hellur, þ.e. að rekstraraðilinn sem tók við því, Kaupfélag Skagfirðinga, hafi ekki staðið sig. Þetta kom fram í máli hæstv. ráðherra.

Auðvitað er það þannig að þetta átti ekki að þurfa að gerast og vera rekið á þennan hátt í 4--6 mánuði eða frá 1. mars sl. Í ljós kom að hjá póstþjónustunni í Varmahlíð voru við hliðina á stimplinum skrúfur og vigt til að vigta skrúfur. Í næsta rekka var þess vegna smurning og olíur. Þetta var náttúrlega alveg út í hróa hött.

(Forseti (HBl): Til að þær ryðgi ekki, skrúfurnar.)

Hvað segir hæstv. forseti?

(Forseti (HBl): Til að þær ryðgi ekki skrúfurnar, sagði ég.)

Þær eru nú margar hverjar rústfríar. Kaupfélagið selur rústfríar skrúfur þannig að ég veit ekki hvaða áhrif það hefur átt að hafa. (Gripið fram í: Ekki allar þó.) Ég hygg að það sé langt síðan Kaupfélag Skagfirðinga í Varmahlíð og bændur í Skagafirði komust inn á það að hætta við skrúfur sem ryðgaða og brotna í sundur og þeir séu komnir yfir í rústfríar skrúfur. En engu að síður, pósturinn þeirra, ábyrgðarsendingarnar, var við hliðina á þessum skrúfurekka og sá sem afgreiddi þarna bensín klæddi sig í jakka til að afgreiða bensín eða olíu, kom svo inn og tók við ábyrgðarbréfi eða afhenti ábyrgðarbréf. Auðvitað er enginn stæll á slíkri þjónustu og þess vegna fagna ég því að hæstv. ráðherra skuli hafa skoðað þetta og ætli sér að breyta þessu.

Hins vegar er ljóst að á nokkrum stöðum, þar sem þessi breyting hefur verið gerð, hefur póstafgreiðslan verið færð yfir í banka og sparisjóði. Þar er það með miklum myndarbrag gert en á öðrum stöðum er aðstaðan ekki fyrir hendi. Nægir þar að nefna t.d. Skagaströnd þar sem aðstaðan í bankaútibúinu er engan veginn nægilega góð. Þar sér maður að pósturinn fær e.t.v. afnot af bankastjóraborðinu ef bankastjórinn frá Blönduósi er ekki í heimsókn. Þá er verið að raða þessu niður, hvort pósturinn geti fengið afnot af þessu bankastjóraborði til að flokka póstinn áður en hann er borinn út. (Gripið fram í.) Ja, vonandi hefur bankastjórinn eitthvað að gera við að taka við peningum til að leggja inn og ávaxta.

Það er svo, herra forseti, að það hefur komið fram og er mjög jákvætt að hæstv. samgrh. hefur sagt að Íslandspóstur þurfi að bæta úr, eins og hann orðaði það. Hann þarf að bæta úr því sem gert hefur verið. Það er með öðrum orðum svo að Íslandspóstur hefur farið offari í þessum niðurskurði. Hann hefur á mörgum stöðum tekið arfavitlausar ákvarðanir eins og ég hef nefnt hér og þeim ber að breyta.

Á öðrum stöðum, stærri stöðum, getur maður hins vegar alls ekki verið sammála því að þörf sé á því að pósthúsinu á viðkomandi stað sé lokað. Sem dæmi get ég tekið það ágæta samfélag Bolungarvík þar sem til stendur að taka allt út úr pósthúsinu og færa það yfir í sparisjóðinn. Þar á að leggja pósthúsið niður, nýtt og glæsilegt pósthús sem var byggt og tekið í notkun --- ég held að það séu 20 ár síðan. Það er e.t.v. verið að spara þar laun til tveggja manna, það er kannski aðalsparnaðurinn en eftir stendur fjárfestingin í húsunum og rekstur þeirra. Oft seljast þessi hús ekki alveg um leið og séu þau tekin þannig út úr rekstri Íslandspósts eru þetta mörg skref aftur á bak. Ég geri mikinn mun á þessum málum eftir stærð þeirra sveitarfélaga sem í hlut eiga. Sums staðar er þetta réttlætanlegt og getur orðið til að bæta þjónustu við íbúana ef henni er komið fyrir á skynsamlegum stöðum. Annars staðar getur þetta hreinlega orðið til þess að draga úr þjónustu og gert hana miklu miklu erfiðari en hún þarf að vera. Ég bendi á þessi dæmi sem ég hef tekið máli mínu til stuðnings.

Herra forseti. Einnig vil ég minnast aðeins á síðustu blaðsíðu þessa frv. Þar er í umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. fjallað um jöfnunargjaldið. Þar er talað um að jöfnunargjaldið, verði þetta frv. að lögum óbreytt, muni ekki koma til álagningar á árinu 2003. Mig langar að spyrja hæstv. samgrh. hvað geri það að verkum að við ætlum ekki að innheimta þetta jöfnunargjald strax. Af hverju er það bara hreinlega ekki sett inn í þessi lög líkt og við gerðum með alþjónustuna varðandi símafyrirtækin fyrir nokkru þegar fjallað var um það mál? Hvers vegna er þetta ekki sett inn núna? Ég er ekki endilega að segja að á því sé þörf en mig langar að heyra skýringuna. Hvers vegna ekki? Það er ljóst, eins og hér segir, að verði þetta ekki lögfest fyrir 1. janúar 2003 þá kemur ekki til álagningar á árinu 2003.

Rétt í lokin, herra forseti. Hæstv. samgrh. fór yfir og veitti okkur dálitla innsýn í rekstrarlegar tölur Íslandspóst í lok ræðu sinnar áðan. Það var ágætt en ég tók eftir því að rekstrarkostnaður hefði lækkað um 300 millj. kr., út af ýmsum aðgerðum sem farið hefur verið í, eins og lokun pósthúsa og annað slíkt. Heyrði ég það rétt að þetta væru 300 millj. kr. á ári? Eða eru þetta 300 millj. kr. frá upphafi?

Margir talað um að pósthúsum megi breyta á þann hátt að þau fái að taka að sér fleiri verkefni, að ekki komi til lokunar heldur fái þau frekar að taka að sér fleiri verkefni. Við sjáum það á nokkrum pósthúsum að þau hafa tekið að sér ýmis önnur verkefni, sem e.t.v. tilheyra þessari grunnþjónustu. Ég hefði viljað sjá það gerast í fleiri tilvikum og að það yrði skoðað í stjórn Íslandspósts að fjölga verkefnum hjá þeim pósthúsum þar sem það er hægt, þ.e. þar sem það margir búa að þeir geti tekið við þeirri þjónustu og skapi betri rekstrarskilyrði fyrir viðkomandi pósthús.