Póstþjónusta

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 16:38:21 (1046)

2001-11-01 16:38:21# 127. lþ. 19.4 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[16:38]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu þakka hv. þm. fyrir ágætar undirtektir við þetta frv. Ég vænti þess að hv. samgn. fari rækilega yfir það. Það komu ekki fram neinar þær athugasemdir sem ég tel að geti leitt til sérstakra tafa á afgreiðslu málsins í þinginu þannig að ég er býsna bjartsýnn með að takast megi að ljúka afgreiðslu þess á tiltölulega skömmum tíma.

Varðandi fyrirspurnir hv. þm. Kristjáns Möllers þá vil ég í fyrsta lagi segja um alþjónustugjaldið að ég geri ekki ráð fyrir að leggja það á enn sem komið er vegna þess að leyfi til alþjónustu hefur ekki verið veitt neinu fyrirtæki enn sem komið er þannig að krafa geti komið um greiðslur úr þessum sjóði. Meðan svo er þá er ekki ástæða til að innheimta alþjónustugjald af markaðsráðandi fyrirtæki vegna þess að það er eina fyrirtækið sem sinnir þessu enn sem komið er. En við gerum ráð fyrir því að á því geti orðið breytingar og þá verður tekin afstaða til þess hvert gjaldið þarf að vera og reynt að meta þann kostnað sem þar er um að ræða.

Hvað varðar 300 millj. kr. sparnaðinn sem ég gat um í ræðu minni þá hafa hagræðingaraðgerðir sem fyrirtækið hefur staðið fyrir verið metnar svo að tekist hafi að lækka kostnað um 300 millj. kr. á ári. Af því má sjá að auðvitað hefur verið eftir heilmiklu að slægjast. Ástæðan fyrir því að hægt hefur verið að ná þessum árangri er auðvitað að feiknamiklar breytingar hafa orðið í samfélagi okkar og á þessari þjónustu. Af þeim sökum hefur verið eðlilegt að gera breytingar á starfseminni sem hafa leitt til þessarar kostnaðarlækkunar.

Hluti af þessum sparnaði hefur hins vegar verið nýttur til að auka þjónustuna, koma á fimm daga dreifingu sem víðast í sveitum landsins, þar sem ekki var áður dreift nema fáa daga í viku. Þessar skipulagsbreytingar og endurskoðun á rekstrinum hafa leitt til þess að fyrirtækið er betur sett en áður.

Ég vil í lokin endurtaka það að tilgangurinn með þessu frv. er að skapa skýrari og sterkari löggjöf um póstþjónustuna í landinu með það að markmiði að tryggja að þau fyrirtæki sem taka að sér póstdreifingu hafi skýr fyrirmæli um þá þjónustu sem á að veita. Ég tel að það sé afskaplega mikilvægt og nauðsynlegt verkefni.