Girðingarlög

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 16:43:10 (1047)

2001-11-01 16:43:10# 127. lþ. 19.5 fundur 180. mál: #A girðingarlög# (heildarlög) frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[16:43]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég kem í stól Alþingis til að mæla fyrir frv. til girðingarlaga. Frv. er á þskj. 183 og er 180. mál á þessu þingi.

Það kann kannski að skjóta skökku við að vera að setja lög um girðingar og þau málefni en einhvers staðar stendur nú að ,,garður er granna sættir``. Kannski þurfa fremur en fyrr að ríkja um girðingar mjög skýrar reglur og ekkert síður með þeim breytingunum sem orðið hafa í sveitunum. Það er nú svo að það búa ekki allir lengur með ær og kýr. Lögbýlin eru hafa margvísleg hlutverk og mismunandi starfssvið þannig að það er mikilvægt að hafa skýrar reglur og lög um ákveðin grundvallaratriði.

Með frv. er lagt til að skipting girðingarkostnaðar á landamerkjum verði alltaf til helminga. Bætt er inn í lögin ákvæðum varðandi rafgirðingar en hingað til hefur ekki verið gert ráð fyrir rafgirðingum í girðingarlögum. En eins og hv. þm. þekkja þá hafa rafgirðingar rutt sér nokkuð til rúms og sumum til ama. Aðrir hrífast kannski af þeim en það er mjög mikilvægt að taka þær inn í þessi lög. Þær eru hluti af nútímanum og þróuninni í þessum efnum, ekki síst í kringum kannski stórgripi og hrossin.

Með frv. er einnig lagt til að taka skuli girðingu upp ef hætt er að nota hana svo hún valdi ekki tjóni. Ég held að allir sjái að það er mikilvægt, að þegar girðing hefur lokið hlutverki sínu sé sú skylda lögð á þann sem girðinguna á að hann hirði hana upp. Sá sem hér stendur berst fyrir fegurri sveitum og leggur mikið upp úr umgengninni um landið og náttúruna. Það skiptir miklu máli bæði fyrir bændurna sem matvælaframleiðendur og ekki síður fyrir Íslendinga sem ferðamannaþjóð, sem þurfa að hluta til að lifa af því að vel sé gengið um landið, að sveitabæirnir séu fallegir og ljótar gaddavírsgirðingar sem hætt er að nota hverfi úr náttúrunni. Þarna er auðvitað verið að vinna heilmikið starf á vegum sveitarfélaganna, á vegum bændanna. Ég er þakklátur fyrir gott starf nefndar sem ég skipaði til þess að sinna þessu verkefni með átaksverkefninu Fegurri sveitum. Mér hefur fundist nefndin ná góðum árangri.

Ákvæði er varða veggirðingar eru felld niður en í vegalögum er fjallað um þær og ekki þykir ástæða til að það sé gert á tveimur stöðum. Ákvæði girðingarlaga gilda þó ávallt um uppsetningu og tæknilegan frágang girðinga.

Með frv. er auk þess lagt til að í reglugerð verði kveðið á um það hvaða skilyrði girðing þurfi að uppfylla til að teljast fullnægjandi varsla fyrir hverja bútegund. Þetta er ákvæði sem mjög mikilvægt er að hafa skýrt, við getum hugsað okkur girðingar utan um graðpening, t.d. stóðhestana. Þar sem þeir eru þurfa að vera öruggar girðingar. Eins er það auðvitað í kringum nautgripina. Þar eru kannski mannýg naut að þjóna náttúru sinni. Þar er vissara að hafa öflugar girðingar og ekki síður hitt í mínum huga að þær séu vel merktar þannig að þeir sem fara um viti að þar geti verið hætta á ferðum.

Í reglugerð verður einnig fjallað um hvernig háttað skuli undirbúningi, uppsetningu, gerð og tæknilegum frágangi girðinga, hliða o.fl. sem tengist girðingu með beinum hætti. Það skiptir máli hvernig staðið er að því þegar menn leggja í þessi verkefni bæði með tilliti til veðurlags í hverju héraði fyrir sig, hvaða girðingar standast þá veðráttu sem við búum við o.s.frv. Gerðar hafa verið ýmsar merkar rannsóknir á því hvað ný girðing þarf til að standast veðráttuna og mismunandi aðstæður. Menn þurfa því ekki að fikta hver í sínu horni heldur geta gengið að ákveðinni niðurstöðu sem er þekkt. Ég minntist á hliðin og þar er að mínu mati stórmál sem kannski þarf að taka enn frekar á, þ.e. að frágangur sé ákveðinn og þau aðgengileg fyrir alla. Vondu hliðin eru frekar skilin eftir opin heldur en hin góðu hlið sem auðvelt er að umgangast, opna og loka.

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að orðlengja þetta því að málið hefur verið flutt áður í þinginu og verið fjallað um það. Ég vona að það fái góða meðferð í hv. landbn. og verði að lögum á þessu þingi.

Að lokum legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.