Girðingarlög

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 16:56:10 (1049)

2001-11-01 16:56:10# 127. lþ. 19.5 fundur 180. mál: #A girðingarlög# (heildarlög) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[16:56]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir til 1. umr. frv. til girðingarlaga, sem er gamall kunningi. Um frv. var nokkuð fjallað á 126. löggjafarþingi, bæði á hv. Alþingi við 1. umr. og eins var töluvert unnið að þessu máli í nefnd en það varð ekki útrætt og er því komið hér aftur til 1. umr. og hefur eitthvað svolítið verið endurskoðað og breytt í meðförum.

Að flestu leyti mundi ég segja að þetta væri hið besta mál. Girðingarlög eru gríðarlega viðkvæm mál og hafa verið það svo lengi sem elstu menn muna og jafnvel lengur. Maður þarf ekki að hugsa lengi til að muna eftir ýmsum dómsmálum og langvígum deilum sem hlotist hafa af girðingum. Þó að hæstv. landbrh. hafi haft það á orði að garður væri granna sættir þá hefur það ekki alltaf reynst raunin.

Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa gengist í að um þetta væri sett betri og fullkomnari löggjöf en áður hefur verið í gildi og eins og ég sagði held ég að þessi lög séu að flestu leyti til bóta.

Í 2. gr. frv. er t.d. kveðið mjög skýrt á um hvernig til hinna ýmsu gerða girðinga skuli stofnað og ég held að það sé til bóta. Flest af þessu var að einhverju leyti áður í reglugerðum en hér er þetta komið inn í lög og þarna hafa bæst við rafgirðingar en ég man ekki eftir að á þær hafi verið minnst í lögum áður, um hvernig þær ættu að vera úr garði gerðar og ég fagna því að þarna skuli vera kominn ákveðinn vísir í þá átt.

Í 3. gr. er talið upp hvernig hver girðing á að vera úr garði gerð til að hún sé fullkomin varsla fyrir hverja búfjártegund.

[17:00]

Í 5. gr. frv. kemur fram það atriði sem olli mestum vangaveltum og umræðum í fyrra, þ.e. lagt er til að ef umráðamaður lands vill girða það hefur hann rétt til að krefjast þess að sá eða þeir sem land eiga að hinu fyrirhugaða girðingarstæði greiði girðingarkostnaðinn að jöfnu að tiltölu við lengd girðingar fyrir landi hvers og eins, og er það meginreglan, stendur hér. Hér hefur verið bætt inn smábreytingu frá því að ég sá þetta mál síðast, þ.e. þarna kemur inn setning þar sem segir: ,,Þó er hægt að semja um aðra skiptingu nái aðilar um það samkomulagi.`` Og seinna í greininni er getið um að ef slíkt samkomulag næst ekki sé það viðkomandi búnaðarsamband sem tilnefnir fagaðila til að skera úr um ágreining. Ég held að það sé náttúrlega strax til bóta að það sé þá a.m.k. hægt, ef vilji beggja stendur til þess, að semja um aðra skiptingu kostnaðar en að skipta þessu að jöfnu. En mér finnst samt sem áður að athuga þurfi hvort það er endilega í öllum tilfellum viðkomandi búnaðarsamband sem á að tilnefna fagaðila til að skera úr vegna þess að nú er staðan slík að það er fjöldinn allur af jörðum úti um allt land sem eru í einkaeigu og ekki eru notaðar eða nýttar sem bújarðir, kannski nýttar til einhvers annars og það kunna að vera ólíkir hagsmunir, en samkvæmt þessu mundu það alltaf vera hagsmunir bændanna sem réðu úrslitum. Þetta er alla vega eitthvað sem mér finnst þurfa að ræða og athuga betur.

Í 9. gr. er einnig nokkuð kostuleg málsgrein sem lýtur að þessu:

,,Nú ræður landamerkjum krókóttur vatnsfarvegur eða merki liggja í smákrókum af öðrum ástæðum, en landeigandi vill girða beint og vill sá eigi samþykkja er á land á móti. Þá skal það þó heimilt ef úrskurðaraðilar, sbr. 7. gr., meta að eigi séu gildar ástæður til að banna girðinguna`` --- úrskurðaraðilar sem eru þá frá viðkomandi búnaðarsambandi --- ,,og skulu þeir þá ákveða girðingunni stað og skal það gert þannig að sem jafnast sneiðist bæði löndin.``

Þarna komum við enn að þessu alvaldi búnaðarsambandanna sem ég set svolítið spurningarmerki við, þó að það kunni að eiga við í sumum atriðum, en ég tel að þetta sé atriði sem við þurfum að ræða og meta upp á nýtt.

Í 11. gr. koma ákvæði sem eru tvímælalaust til mikilla bóta um t.d. viðhald girðinga. Skylt er að viðhalda girðingum og ef það er ekki gert má gera við þær á kostnað eiganda. Einnig er ákvæði þarna um að ef hætt er að nota samgirðingu og jafnframt að halda henni við, þá sé skylt að taka hana upp svo hún valdi ekki tjóni. Ég tel að þetta atriði sé til mikilla bóta og þetta er mikið dýraverndunarmál í sjálfu sér. Það hefur oft komið fyrir að kindur sérstaklega hafa orðið að draga á eftir sér gaddavírsflækjur dögum og vikum saman vegna þess að ekki hefur verið hirt um að ganga nógu vel frá þessum málum. En nú er öllum umráðamönnum lands skylt að hreinsa burt af landi sínu ónotaðar girðingar og girðingaflækjur og ef það er ekki gert og er vanrækt í heilt ár, þá er sveitarstjórn skylt að framkvæma verkið á kostnað eiganda, að fengnu mati búnaðarsambands, að sjálfsögðu, og á sveitarstjórn þá lögveð í jörðinni fyrir greiðslu kostnaðar. Frá þessu er nokkuð tryggilega gengið, að mínu mati.

Hæstv. forseti. Ég vil að flestu leyti fagna frv. og mun fyrir mitt leyti reyna að stuðla að því að það fái sem fyrst góða afgreiðslu í hv. landbn.