Girðingarlög

Fimmtudaginn 01. nóvember 2001, kl. 17:09:19 (1051)

2001-11-01 17:09:19# 127. lþ. 19.5 fundur 180. mál: #A girðingarlög# (heildarlög) frv., DrH
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 127. lþ.

[17:09]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Hér er til 1. umr. frv. til girðingarlaga. Þetta frv. var flutt á síðasta þingi, 126. löggjafarþingi, og var þá sent til umsagnar. En markmiðið með lögunum er að fjalla um girðingar, hverjir fara með forræði yfir þeim, kostnaðarskiptingu við uppsetningu þeirra á landamerkjum og hvaða skilyrði girðing þarf að uppfylla til að teljast fullnægjandi varsla fyrir búfé.

Gerð hefur verið veruleg breyting á einni greininni, þ.e. 5. gr., sem ég tel vera mjög til bóta, og er varðandi helmingaskiptaregluna, að hún gildi ekki alltaf heldur geti menn komið sér saman um skiptinguna. Ég held að þetta sé mjög til bóta fyrir þá sem eiga mjög landstórar jarðir því hagsmunir þeirra fara kannski ekki alltaf saman við þá sem nærliggjandi eru, þannig að þeir sem vilja girða geta þá tekið á sig meiri kostnað.

Af því að ráðherra minntist áðan á verkefnið Fegurri sveitir, þá vil ég taka undir orð hans hvað það verkefni hefur skipt miklu máli. Gengið hefur verið mjög faglega til verks af nefndinni og hún hefur unnið afar vel. Þess sjást merki mjög víða hve vel hefur verið gengið eftir í því að gamlar girðingar hafi verið teknar upp og þeim fargað og eins varðandi alla tiltekt, því að það skiptir miklu máli fyrir ímynd landbúnaðarins að góð umgengni sé á bændabýlum.

Varðandi það sem rætt hefur verið um 9. gr., þá held ég að það sé bara skynsemin sem ræður því að ekki sé verið að fara með girðingu fyrir krókótt vatnsföll. Þannig hefur alltaf verið staðið að girðingum á landamerkjum að reynt hefur verið að taka beina leið og þá hefur verið reynt að skipta því jafnt á milli landeigenda hvorum megin girðingarinnar sem er, það er kannski tekinn suðurhluti af landinu og hann er öðrum megin við vatnsfallið og síðan á jafnstóru svæði er farið yfir á hina landareignina. En allt þetta er líka hægt að bæta með stigum yfir girðingar og hliðum.

Einnig er nýmæli í 2. gr., þ.e. að búnaðarsamband eigi að meta hvaða girðingar eru gripheldar, ekki bara fjárheldar, og ég tel að það skipti mjög miklu máli. Ég tel að viðkomandi búnaðarsamband eigi að vera með matið á girðingunum, þar er þekkingin fyrir hendi. Ég tel mjög vafasamt að láta sýslumannsembættin skera úr í mati fyrr en ágreiningur er orðinn. Við megum ekki gleyma því að yfirleitt sættast menn á hlutina, koma saman og ræða málin og sannarlega er girðing granna sættir.

Í umræðunni áðan kom fram varðandi hagsmunina að búnaðarsamböndin mundu ávallt taka hagsmuni bænda fram yfir hagsmuni annarra. Ég tel það ekki vera, ég held að þau vinni bara afskaplega hlutlaust og ég tel að það sé orðið miklu meira tillit tekið til hagsmuna þeirra sem vilja verja landið fyrir beit t.d. og þeirra sem eru í skógrækt. Það er mjög mikilvægt að tekið sé tillit til þess, því það eru það miklar landbætur í skógræktinni.

Herra forseti. Ég tel að ekki þurfi að vísa þessu máli til umsagnar aftur því að það var sent til umsagnar á síðasta þingi og tekið hefur verið tillit til athugasemda, t.d. við 5. gr. Ég tel því að hægt ætti að vera að ganga frá þessu máli fljótt og örugglega í landbn.