Ummæli sjávarútvegsráðherra á aðalfundi LÍÚ

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 10:35:14 (1057)

2001-11-02 10:35:14# 127. lþ. 20.91 fundur 97#B ummæli sjávarútvegsráðherra á aðalfundi LÍÚ# (aths. um störf þingsins), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[10:35]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég heyrði þessa frétt án þess að ég væri að hlusta með allt of mikilli athygli þannig að ég get ekki farið nákvæmlega með hvernig hún var. En ég man eftir því þegar ég heyrði fréttina að mér fannst hún ekki vera nákvæm. Það var vitnað til þriggja nefndarmanna stjórnarandstöðunnar og vitnað til þess að þeir hafi farið í nefnd án þess að hafa haft í hyggju að ná samkomulagi. Ég held að fréttamaðurinn hafi þar verið að rugla saman tveimur nefndum. Það voru þrír nefndarmenn stjórnarandstöðunnar í auðlindanefndinni og þar náðist samkomulag eins og alkunna er.

Hins vegar náðist ekki samkomulag í endurskoðunarnefndinni og hef ég reyndar áður sagt það og það meira að segja hér úr þessum stól og þá hafa viðkomandi aðilar verið viðstaddir og hef ég meira að segja vitnað í framlögð þingmál þingflokks hv. þingmanna um að það hafi verið lítill áhugi á því að ná samstöðu um málið í endurskoðunarnefndinni. Það er reyndar skoðun mín, en að hún hafi komið fram á einhvern lúalegan hátt þannig að menn hafi ekki haft tök á því að verja sig er fullkomlega rangt. En fyrst verið er að vitna í þessa tilteknu ræðu þá kom það reyndar fram í henni að ég vonaðist til þess að þegar kæmi að lokum til afgreiðslu málsins, þá mundu allir standa saman um það grundvallaratriði sem er hvað mikilvægast í þessari sátt að útgerðin greiði hóflegt veiðileyfagjald sem sé sýnilegur hluti alls almennings í þeim umframhagnaði sem getur orðið af greininni.