Ummæli sjávarútvegsráðherra á aðalfundi LÍÚ

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 10:58:13 (1068)

2001-11-02 10:58:13# 127. lþ. 20.91 fundur 97#B ummæli sjávarútvegsráðherra á aðalfundi LÍÚ# (aths. um störf þingsins), JÁ (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[10:58]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég var að heyra hvað hæstv. ráðherra sagði á fundi LÍÚ rétt áðan og ég sé ástæðu til að bera af mér sakir. Ég fór ekki inn í þetta nefndarstarf með því hugarfari sem hann var að lýsa. Ég tel að þeir sem sátu í nefndinni --- ráðherrann gerði ekki, ég varð a.m.k. ekki var við hann á fundum þó að maður skildi svo sem að hans andi svifi þar stundum yfir --- geti borið um það vitni að menn gerðu tilraun og gengu lengra, held ég, allir, en þeir töldu að rétt væri út frá sínum eigin sjónarmiðum. Það hefur verið viðurkennt og staðfest af þeim sem voru í nefndinni.

Það er hæstv. ráðherra sem einn hefur verið um að halda því fram að menn hafi þarna unnið af óheilindum. Hann er maður að minni, finnst mér eftir að hafa heyrt það sem hann sagði hér áðan.