Ummæli sjávarútvegsráðherra á aðalfundi LÍÚ, ræðutími o.fl.

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 11:04:45 (1074)

2001-11-02 11:04:45# 127. lþ. 20.94 fundur 100#B ummæli sjávarútvegsráðherra á aðalfundi LÍÚ, ræðutími o.fl.# (um fundarstjórn), sjútvrh. (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[11:04]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Það var beinlínis rangt sem kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það hefði verið rétt farið með í fréttinni því það voru ekki þrír fulltrúar stjórnarandstöðunnar í endurskoðunarnefndinni eins og vitnað var til í fréttinni. Tilvitnunin um það var að þrír fulltrúar stjórnarandstöðunnar voru í auðlindanefndinni þar sem ,,sáttin`` svokallaða náðist.

Varðandi ummæli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar vitnaði ég bara til greinargerðarinnar með frv. Samfylkingarinnar um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða sem er flutt í þriðja skipti óbreytt á Alþingi þar sem klárlega kemur fram í greinargerðinni að vilji Samfylkingarinnar til sátta var afskaplega lítill ef nokkur, og þar segir: ,,Samfylkingin mundi aldrei samþykkja það.``

Hverjir voru að setja skilyrðin? Hverjir voru það sem ekki voru tilbúnir að ganga til sátta? Þetta eru þeirra eigin orð í þeirra eigin greinargerð með þeirra eigin frv. sem var flutt óbreytt í þriðja skipti þrátt fyrir þá vinnu sem unnin hefur verið í þessum tveimur nefndum, þrátt fyrir það að fulltrúar þeirra skrifuðu undir álit auðlindanefndarinnar. En eins og ég sagði í títtnefndri ræðu er ekki búið að leggja fram frv. um þetta efni á þinginu og menn hafa tækifæri til þess að standa saman um málið þegar Alþingi afgreiðir þá niðurstöðu sem kynnt verður hér þegar frv. verður lagt fram.