Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 11:24:25 (1079)

2001-11-02 11:24:25# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[11:24]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að bjóða hæstv. sjútvrh. velkominn í hóp okkar sem höfum verið að flytja tillögur um það á undanförnum árum að umbuna ætti sjómönnum fyrir að koma með allan afla að landi fremur en að refsa þeim eins og tilhneigingin hefur verið og er þar vísað til 4. gr. þessa frv. sem ég mun ræða frekar síðar í umræðunni.

Ég vildi hins vegar spyrja hæstv. ráðherra, við upphaf umræðunnar, um stöðu smábáta á aflamarki. Nú er það svo að nokkur fjöldi smábáta á aflamarki hefur mátt sæta skerðingum eins og aðrir bátar og skip á aflamarki í gegnum tíðina, ekki síður en aðrir bátar og skip meðan afli annarra smábáta hefur aukist samkvæmt stjórnvaldsákvörðunum.

Það er ljóst að í þessu frv. er verið að reyna að ná utan um smábátana. Það er verið að reyna að gera flestum smábátaeigendum lífið bærilegra, m.a. er þeim sem völdu krókaaflamark vorið 1999, en komu illa út úr kvótasetningu, leyft að velja aftur. Ég spyr því: Kom ekki til álita að skoða sérstaklega mál smábáta á aflamarki? Það er alveg ljóst að margir þeir bátar hafa mjög litla aflahlutdeild, sífellt minnkandi á undanförnum árum og má kannski segja að margir þeirra báta hafi náð að lifa af því að stunda grásleppu á vorin. Ég spyr í von um að fá við því svar strax við upphaf umræðunnar því að mér finnst það skipta máli: Af hverju er þessi eini flokkur smábáta ekki skoðaður fyrst að reynt er með frv. þessu að gera öllum öðrum lífið bærilegra?