Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 11:26:30 (1080)

2001-11-02 11:26:30# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[11:26]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Smábátar á aflamarki voru ekki til sérstakrar umfjöllunar þegar unnið var að þessu frv., einfaldlega vegna þess að þeir verða ekki fyrir beinum breytingum af upptöku krókaaflamarkskerfisins. Þeir eru þegar í aflamarkskerfinu og krókaaflamarksupptakan hefur ekki bein áhrif á þá að öðru leyti en því að breytingar á aflahlutdeildum krókaaflamarksbátanna munu hafa áhrif á aflamarksbáta sem slíka.

Það er hins vegar rétt að aflamark og afli smábátanna hefur minnkað vegna samdráttar í veiðum þeirra og eins vegna ýmissa tilfærslna sem hafa orðið í kerfinu frá því að það var tekið upp. Það á vissulega við um aðra hluta aflamarkskerfisins, ekki bara þá sem kalla má smábáta. Það á við um vertíðarflotann og það má auðvitað endalaust deila um hversu réttlátar eða réttmætar þær breytingar eru. Hins vegar má vera ljóst að tilflutningur á veiðiheimildum til þessa hluta flotans mundi þýða minni heimildir til annars hluta flotans. Það verður að skoðast í því samhengi. Ef menn vilja gera það þá ætti að gera það í heildarendurskoðuninni frekar en þegar gerðar eru ráðstafanir sérstaklega vegna krókaaflamarksins, án þess að ég sé sérstaklega að boða að það verði gert.