Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 11:28:33 (1081)

2001-11-02 11:28:33# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[11:28]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það kom fram í ræðu minni áðan að mér er auðvitað fullkomlega ljóst að allir bátar og skip sem verið hafa á aflamarki hafa sætt sambærilegum skerðingum, ekki bara smábátar. Ég er hins vegar að vekja athygli á því að þessi eini hópur smábáta fær ekki neina leiðréttingu eða umbun. Honum er ekki á nokkurn hátt mætt í þessu frv. og það er ekki rétt sem hæstv. ráðherra sagði áðan að þeir verði ekki fyrir beinum breytingum vegna upptöku krókaaflamarksins og þeirra ráðstafana sem er verið að gera. Þeir verða auðvitað fyrir þeim beinu breytingum að aflahlutdeild þeirra verður væntanlega skorin niður. Hér er auðvitað um áhrif að ræða og mér finnst fullkomlega eðlilegt að þessi flokkur smábáta sem ég geri hér að umtalsefni sé inni í aflamarkskerfinu, sé skoðaður með hliðsjón af öðrum smábátum, rétt eins og þeir sem eru inni í dagakerfinu. Mér finnst það eðlilegt og ég mun beita mér fyrir því að þetta mál verði skoðað í nefndinni. Mér finnst ekki verið að tala um neitt allsherjarréttlæti með þessu frv. Við erum að tala um það réttlæti sem falist getur í því þegar hv. Alþingi færir til aflahlutdeild með handafli, þegar menn taka meðvitaða ákvörðun um að flytja aflahlutdeildir eða aflamark á milli báta og ákveðinna tegunda báta. Svo framarlega sem menn vilja að eitthvert réttlæti ríki í þeim hópi, sem við getum kallað smábáta á Íslandi, þá finnst mér eðlilegt að málið sé skoðað í nefnd.