Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 11:38:50 (1087)

2001-11-02 11:38:50# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[11:38]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þetta frv. hefur svo sem legið í loftinu býsna lengi. Þó að sumir hafi bundið vonir við að endurskoðunin á lögunum um stjórn fiskveiða færi fram samhliða fyrir allan flotann er sú von nú dáin út og kannski var hún líka dáin út áður en þetta frv. kom fram vegna þess að Sjálfstfl. samþykkti á landsfundi sínum fyrir nokkru að ekki yrðu gerðar breytingar í neinum grundvallaratriðum á lögunum um stjórn fiskveiða. Ekki yrðu neinar breytingar á þeim atriðum sem menn hafa tekist harðast á um, þ.e. eignarhaldinu á veiðiheimildunum eða kvótunum, og aðgangnum að því að veiða fisk við Ísland yrði ekki breytt. Það var niðurstaða Sjálfstfl. á landsfundi.

Nú er að sjá hvort Framsfl. er tilbúinn til að gera sams konar samþykkt. Ef það er ekki fyrir hendi hjá Framsfl. virðast mál vera komin í nokkurn hnút milli stjórnarflokkanna í þessu máli. Þannig verður að gera ráð fyrir því að taumurinn sé uppi í Framsfl. í þessu máli eins og öðrum, að sams konar samþykkt verði gerð á landsfundi Framsfl. í þessu efni eins og hjá Sjálfstfl. og að sjútvrh. geti komið hér inn með frv. sem gengur í þá átt sem meiri hlutinn vill í þessari svokölluðu sáttanefnd, sem oft hefur verið nefnd, eða endurskoðunarnefndinni. Nú er að sjá hvort sú niðurstaða verði lögð fyrir hér á Alþingi.

En ég ætlaði að ræða pínulítið um það atriði betur þegar hæstv. ráðherra verður kominn aftur í salinn. Á meðan byrja ég á því að fara yfir nokkur önnur atriði. Hæstv. ráðherra er genginn í salinn og þá ætla ég að klára það sem ég var byrjaður að segja hér um aðdragandann að þessu máli og sáttatalið. Mig langaði til að bæta við fáeinum orðum vegna þeirrar umræðu sem fór fram hér í upphafi fundar, vegna þess að hæstv. ráðherra vitnaði í grg. með frv. Samfylkingarinnar um breytingu á lögunum um stjórn fiskveiða. Og hann vitnaði mjög snaggaralega í það, hann eyddi ekki miklum tíma í þá tilvitnun, en ég tel rétt að fram komi tvær eða þrjár setningar sem eru svona, með leyfi hæstv. forseta, en þá er verið að vitna í nefndarstarfið í nefndinni um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða:

,,Góð samstaða virtist á tímabili í nefndinni um að breyta ætti veiðiréttinum í aflahlutdeildarsamninga. Til þess þarf innköllun veiðiheimilda og nýja úthlutun. Þeir sem skipa meiri hlutann nú hlupu frá þeirri umræðu þegar þeim var ljóst að Samfylkingin mundi aldrei samþykkja að þessum samningum yrði úthlutað eingöngu til þeirra sem eru nú handhafar kvótans.``

Þarna tók hæstv. ráðherra tilvitnun sína, og ég vil að það fylgi með sem ég var að lesa áðan vegna þess að það segir sitt um það hverjum var verið að stilla upp við vegg í þessu nefndarstarfi. Við sem vorum í minni hlutanum stóðum frammi fyrir því að ekki væri hægt að komast lengra í þessu máli heldur en það að þeir sem eru handhafar kvótans í dag skyldu ævinlega hafa forkaupsrétt að þeim litlu veiðheimildum sem yrðu innkallaðar. Þetta var það sem við samþykktum ekki, og ég tel nauðsynlegt að það fylgi með þegar hæstv. ráðherra var að vitna í þetta, um hvað var þarna verið að tala. Læt ég því svo lokið.

En sú krafa sem var háværust í kringum smábátana þegar það var ljóst að hæstv. ráðherra kom í veg fyrir það ásamt öðrum að gildistöku laganna um smábátana yrði frestað í haust, þegar ljóst var að ekki yrði af frestuninni, risu auðvitað miklir úfar með mönnum, miklar kröfur, fundahöld og mótmæli í sjávarbyggðum sem hafa verið að reyna að bjarga sér á smábátum á undanförnum árum og reyna að byggja aftur upp atvinnulífið á stöðunum sem hafa tapað frá sér veiðiheimildum vegna þeirrar verslunar með veiðiheimildir sem viðgengst í þessu landi.

Og menn gerðu ýmsar kröfur um breytingar. Hæstv. ráðherra hefur smám saman verið að skapa þá niðurstöðu sem liggur fyrir núna þó að það sé auðvitað ekki ljóst hvort þetta mál verði með nákvæmlega sama hætti þegar það kemur til 3. umr. hér á þingi eins og það er núna. Engu að síður hafa smám saman orðið til þessar hugmyndir sem hér eru komnar á blað. Þeirri kröfu að þetta yrði gert samhliða með því að endurskoða lögin um stjórn fiskveiða, sem ég nefndi hér áðan, var vísað frá í vor. Og ég tel að þar hafi illa til tekist og ætla ekki að taka þá umræðu nánar hér upp nema tilefni gefist til.

[11:45]

En ég tel að meiri hluti hafi verið í þinginu fyrir því að fresta þessu ef menn hefðu getað staðið hér í lappirnar og staðið við skoðanir sínar í atkvæðagreiðslu. Það er skoðun mín en fyrir henni hef ég einungis tilfinningu. Komið var í veg fyrir að sú frestunartillaga sem lá fyrir kæmi til afgreiðslu og það er ekki þinginu til sóma að vinna með þeim hætti. Ég held að meiri reisn væri yfir Alþingi ef handjárnin væru minna notuð á stjórnarliða en gert hefur verið gert í þessu máli.

En hverju stöndum við frammi fyrir? Við stöndum frammi fyrir enn einni breytingu á smábátakerfinu. Hvers vegna? Auðvitað vegna þess að það kerfi sem við erum með í gangi núna sem varðar eignarhaldið á veiðiheimildum hefur valdið því að veiðiheimildirnar hafa gufað upp af þeim stöðum, sérstaklega smærri stöðum allt í kringum landið, þar sem grunnslóðarflotinn stóð í raun og veru undir byggðinni. Og ef menn hefðu staðið við þá niðurstöðu sem varð hér 1990 þegar lögin voru sett, þá ættu menn að litast um í sjávarbyggðunum og velta því fyrir sér hvernig staðan væri. Þá áttu smábátarnir að fá 2.400 eða 2.500 tonn sem væru líklega ekki meira en 1.500--1.600 tonn í dag. Ef þau lög hefðu gilt fram til þessa dags, þá væri ekki til smábátaútgerð á Íslandi. Hún væri ekki til.

En þingmenn hafa komist að þeirri niðurstöðu með endalausum breytingum hvað varðar smábátana að hafa opna smugu. Opnuð var smuga þegar menn sáu hvað lögin frá 1990 hefðu gert ef þau hefðu fengið að standa. Og síðan hafa menn verið að opna smugur og reyna að loka þeim sífellt fram á þennan dag. En nú ætla menn að loka endanlega, að vísu með svona viðbótum eins og hér eru til umræðu.

Í kjölfar þessa og ef menn breyta ekki reglunum um eignarhaldið mun þróunin verða sú að veiðiheimildir munu gufa upp af smáu stöðunum allt í kringum landið. Byggðirnar munu lenda í enn meiri vanda og ekki verður hægt að bæta sér það upp með því að fara í nýja útgerð í smábátum eða neinu öðru. Ný útgerð á Íslandi á ekki lífsmöguleika og það vita menn í þessum sal.

Þetta fyrirkomulag á eignarhaldinu leiðir til samþjöppunar og flutnings veiðiréttar. Og reglurnar eru þannig að það má flytja hann á einni nóttu, af grunnslóðinni þess vegna og út á stóru skipin. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir það. Ekkert yrði eftir nema það sem er á trillunum, ekkert einasta kíló. Það eru auðvitað ekki skynsamlegar reglur, ekki heldur út frá fiskveiðistjórnarlegum rökum.

En menn hafa ekki viljað horfast í augu við afleiðingar af eignarhaldinu, hafa hins vegar verið að bjarga sér með sífelldum lagfæringum. Menn hafa ekki síður staðið hér og talað um stjórn á smábátum, veiðum smábáta, heldur en hið stóra mál, stjórn á flotanum sem veiðir við Ísland.

Ég held að þingmenn hafi fyrst og fremst litið á þetta sem byggðamál hér á Alþingi þegar þeir samþykktu að áfram væri hægt að hefja veiðar á smábátum eða auka við veiðiheimildir smábáta. Ég lít þannig á. Ég held að áhrifamesta byggðaaðgerðin sem hefur verið í gildi undanfarin ár hafi verið fólgin í þessu. Menn geta verið ósammála um að svona hafi átt að fara að þessu og menn geta verið ósáttir við sinn hlut sem eru að gera út aflamarksbáta og önnur skip sem eru á aflamarkinu. En menn geta varla þrætt fyrir það að þetta hefur verið mjög öflug byggðaaðgerð. Er núna rétti tíminn til að slá niður og draga verulega úr byggðaaðgerðum eða aðgerðum til að halda við byggð í landinu? Ég held ekki. Ég held að ekki sé rétti tíminn til þess nú.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst ýmislegt í frv. vera fyrirkvíðanlegt og þó mest það að nú á ráðherrann að koma með gjafir. Hann á að mæta í einhverjar sjávarbyggðir sem búið er að velja út að eigi að hljóta guðs blessun ráðherrans og draga þar upp úr vasa sínum veiðiheimildir handa einhverjum útvöldum á þeim stað. Auðvitað mun slíkt valda hinum verstu vandræðum. Ég öfunda ekki hæstv. ráðherra af því hlutverki sem hann er að taka að sér þarna. Það verður ekki gott að velja staðina. Og það verður ekki gott að velja útgerðarmennina sem eiga að fá úthlutunina.

Við hjá Samfylkingunni höfum ævinlega lagt áherslu á það í tillögum okkar að komið yrði á jafnræði og reglum sem giltu sem líkast fyrir alla sem væru í þessari atvinnugrein. En hér skal deilt og drottnað, eins og hefur ævinlega verið gert í þessu kerfi. Menn finna upp nýjar og nýjar aðferðir til að útdeila veiðiheimildum. Hver er aðferðin núna? Hún er sú að taka á mið af nýjum árum hvað varðar veiðiréttinn, veiðireynsluna, og svo er bætt ofan á.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hver eru rökin fyrir því að þeir sem eru í þessum hópi eigi að fá viðbótina, þeim eigi að vera mismunað í viðbótinni þegar þeir hafa ekki veiðireynslu fyrir henni?

Verið er að bæta við veiðireynslu skilst mér, og ég bið hæstv. ráðherra að leiðrétta mig ef ég fer rangt með, verið er að bæta fleiri tonnum við þennan flota en veiðireynslan gefur tilefni til og þessum viðbótarveiðiheimildum er deilt út eftir veiðireynslu, þ.e. veiðireynslan sem bátarnir hafa er dobbluð upp.

Ég hefði talið að menn hefðu frekar átt að skoða þann möguleika að þeirri viðbót væri bara deilt út jafnt yfir þennan hóp, en ekki að verið sé að dobbla upp þá veiðireynslu sem þeir hafa. En ég bið hæstv. ráðherra að leiðrétta mig ef ég er að misskilja það sem mér sýndist þegar ég las þetta yfir.

Mig langar til að spyrja um eitt í sambandi við 3. gr. Þar kemur fram að hæstv. ráðherra hafi með höndum að útdeila þessum veiðirétti.

Ég spyr: Verður sá veiðiréttur framseljanlegur sem útdeilt verður með þessum hætti? Verður kveðið á um það í reglugerðinni að þeir sem fái honum úthlutað megi ekki framselja hann til einhverra annarra eða verða þeir e.t.v. að veiða upp bæði sín réttindi og líka þau sem þeim verður úthlutað til viðbótar úr vasa ráðherrans?

Síðan langar mig til að spyrja um eitt sem ég átta mig heldur ekki á í 3. gr.: Er það aflamark sem úthlutað verður samkvæmt 3. gr. krókaaflamark? Gilda sömu reglur um það og aðrar veiðiheimildir í smábátakerfinu? Mætti e.t.v. framselja það á einhvern hátt, ef það er leyfilegt á annað borð að framselja veiðiheimildir frá þeim sem fá þessu úthlutað, til einhverra sem væru utan þessa trillukerfis?

Ég vil nefna hér 4. gr. og vil fagna þeim anda sem í henni er. Það kom einnig fram áðan í andsvari frá hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur við ráðherrann að þetta er auðvitað jákvætt. Og það kom líka fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal. (Gripið fram í.) Það eru nefnilega margir sem hafa borið fram tillögur sem ganga í þessa áttina. En mér finnst að hæstv. ráðherra þurfi að útskýra svolítið nánar fyrir okkur hvers vegna hann velur að hafa þessa prósentu, 5%, sem þarna er ákveðin og að þau 5% eiga við hverja einstaka veiðiferð. Vegna þess að ég tel að þetta, sem er sett fram sem hugmynd um að gera tilraun, sé ekki sama tillagan og hefur verið borin fram hér af mörgum. Menn hafa borið fram tillögur um að þetta verði gert sem tilraun til tveggja ára og menn gætu landað öllum afla utan kvóta sem þeir kysu á þessum forsendum. Hugmyndin er auðvitað sú að á þeim tíma komi það virkilega vel í ljós hvað við erum að gera á miðunum.

Ég held að sú tilraun sem þarna er verið að huga að að gera muni auðvitað koma að einhverju gagni til að menn komi með afla að landi sem annars færi í sjóinn, en vegna þess að menn veiða kannski ekki mjög nákvæmlega þann afla stöðugt í hverri veiðiferð, þá sé ekki heppilegt að þetta skuli vera 5% í hverri einstakri veiðiferð en ekki einhver prósentutala af heildarafla viðkomandi skipa.

Síðan langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna ekki hefur birst hér tillaga sem kom fram í tillögum frá endurskoðunarnefndinni eða meiri hlutanum sem gekk út á að leyfa ætti stærri báta í smábátakerfinu en nú er. Í afskilnaði þeirrar nefndar var lagt til að menn ættu að fá að vera á bátum upp í 15 tonn í smábátakerfinu en hæstv. ráðherra hefur ekki lagt það til í frv.

Að lokum er eitt sem mig langar til að spyrja um en það er hvort ráðherrann hafi ekki velt því fyrir sér í einhverri alvöru --- mér finnst ég hafa heyrt eitthvað eftir honum haft í þá áttina eftir fund með smábátamönnum --- að til greina kæmi að endurskoða dagakerfið á einhvern hátt, en hér eru engar tillögur um breytingar á dagakerfinu í frv. Eins og menn vita er 10% skerðing á öllum dögum í dagakerfinu og ef það heldur áfram með sama hætti og nú er munu auðvitað skapast alls konar vandamál og mikill samdráttur og vandi hjá þeim sem stunda veiðar í atvinnuskyni í því kerfi. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er ekki hugmyndin að menn skoði þetta neitt í vetur eða hefur hann kastað þeim öllum til hliðar? Ég skildi það þannig að hæstv. ráðherra væri með þetta í jákvæðri athugun.

Ég sé að tími minn er floginn en ég hefði viljað bæta fleiru við og e.t.v. tek ég til máls aftur síðar í umræðunni en læt hér lokið máli mínu núna.