Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 12:02:29 (1090)

2001-11-02 12:02:29# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[12:02]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að biðja hv. þm., hafi hann ákveðna skoðun á því hvaða tímabil eigi að miða við, að hann komi með hugmynd í þeim efnum. Sé það t.d. hugmynd hv. þm. að það eigi að nota það viðmiðunartímabil sem gengið var frá þegar lögin á árinu 1999 voru samþykkt, þá vil ég að hv. þm. segi það.

Telji hv. þm. t.d. að það eigi að nota þriggja ára viðmiðunartímabil þá vil ég gjarnan að hv. þm. greini okkur frá þeirri afstöðu sinni.

Ég skil það hins vegar vel ef hv. þm. hefur ekki mótað það nákvæmlega með sér hvernig eigi að líta á þessa viðmiðun. Ég geri mér grein fyrir því að þetta er gríðarlega flókið, viðkvæmt og erfitt mál og er eitt af stóru málunum sem við stöndum frammi fyrir núna á næstu vikum þegar við förum að vinna í því.

Það sem ég var einfaldlega að reyna að undirstrika í máli mínu áðan var að grundvallarhugsunin á bak við frv., eins og glögglega má sjá ef það er lesið, er að reyna að endurspegla sem mest veruleikann eins og hann er núna þannig að þær útgerðir, þeir sjómenn og þeir staðir sem hafa byggt á frjálsri veiði í ýsu og steinbít geti, að svo miklu leyti sem það er hægt miðað við það fiskveiðistjórnarkerfi sem hérna er verið að innleiða, að sem mestu leyti haldið því veiðimunstri áfram sem þeir hafa verið að tileinka sér á síðustu árum.

Það er alveg rétt sem hv. þm. segir að heilmikill vöxtur hefur orðið í ýsuveiðinni og steinbítsveiðinni á þessum árum hjá þessum bátum. Á því eru ýmsar skýringar. Það er t.d. engin spurning að bæði aðstæður í hafinu á liðnu vori og ekki síður sú staðreynd að það var verkfall á meðan á steinbítstímabilinu stóð og það gerði það að verkum að minni bátarnir höfðu miklu meira svigrúm til þess að veiða en þeir ella hefðu haft. Auðvitað hefur þetta í för með sér ýmsar afleiðingar. En ekki má gleyma því, virðulegi forseti, að ýmis svæði eins og t.d. Vestfirðir hafa frá fornu fari, frá ómunatíð, byggt mjög mikið á steinbítnum. Því er gífurlega mikið í húfi fyrir þessar byggðir hvernig viðmiðunartímabilið er valið.