Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 12:06:33 (1093)

2001-11-02 12:06:33# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[12:06]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Er ég á móti byggðakvóta til að styrkja sjávarbyggðir? Tillögur okkar um það efni liggja fyrir hv. Alþingi. Þar er gert ráð fyrir því að ef sjávarbyggðir lenda í miklum vanda sé hægt að grípa til tiltekinna aðgerða. Tillögur okkar liggja alveg fyrir í því og ég veit að hv. 1. þm. Norðurl. e. hefur örugglega lesið það allt í gegn og veit nákvæmlega hvað við erum að leggja til í því efni. Ég tel að það væri fullnægjandi fyrirkomulag. Ég hef hins vegar aldrei útilokað það að hafa öðruvísi reglur um smábáta en stóru skipin og tel að ekkert mæli sérstaklega á móti því.

Hv. þm. nefndi þessa smugu og spurði hvort ég teldi að hún hefði komið öllum sjávarbyggðum til góða. Nei, ég tel það reyndar ekki. Ýmislegt hefur gert það að verkum að mönnum hefur gengið misjafnlega að nýta sér þessa smugu. Hverjar ástæðurnar eru á hverjum stað skal ég ekki um segja. Það kann vel að vera vegna samsetningar flotans á þeim tíma sem þessar smugur opnuðust. En hv. þm. hefur nú staðið að því að hafa þessar smugur opnar fram á þennan dag og hefur borið alveg sérstaklega ábyrgð á þessu kvótakerfi öllu frá upphafi og stutt það með ráðum og dáð. Hann ætti því frekar að útskýra það fyrir okkur hinum sem höfum ekki verið mjög kátir yfir þessu fyrirkomulagi, hvers vegna það hefur ekki virkað nógu vel á Kópaskeri.