Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 02. nóvember 2001, kl. 12:12:48 (1096)

2001-11-02 12:12:48# 127. lþ. 20.7 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 127. lþ.

[12:12]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Á síðustu tíu árum hafa málefni smábáta komið til umræðu á Alþingi líklega nokkrum tugum sinnum. Enn koma málefni smábáta til umræðu og enn eru skiptar skoðanir um málefni þeirra.

Herra forseti. Ég vil í upphafi segja að það alvarlegasta í umræðunni eins og hún hefur verið á síðustu mánuðum er að hún er einfölduð með því að menn velta því upp að með því að leysa vanda smábáta sé verið að ganga á hagsmuni aflamarksbáta. Ég tel það mikla einföldun, beinlínis rangt og óþarft að setja málið þannig upp. Ég tel að það sé gert í þeim einum tilgangi að grafa undan hagsmunum smábátaútgerðar. Hér er auðvitað um miklu stærra og flóknara mál að ræða. Það þarf að skoða heildarsamhengi hlutanna.

Forsenda frv. sem hér er til umræðu er sá dómur Hæstaréttar sem hefur verið túlkaður þannig af stjórnvöldum að nauðsyn beri að bregðast við og lausnin sé sú að setja kvóta á smábáta. Því máli var frestað til þess að smábátar gætu unnið sér tíma til þess að laga sig að breytingum. En nú hefur það tekið gildi og þetta eru viðbrögð í rauninni við því.

Ég lýsi efasemdum mínum og andstöðu við kvótasetningu smábáta. Hvers vegna skyldi ég gera það? Það eru tvær meginástæður fyrir því.

Önnur er sú að ég tel að smábátaútgerð þurfi á engan hátt að vera ógnun við fiskstofna. Smábátaútgerð þarf ekki að vera sú ógnun sem oft er látin í veðri vaka þegar rætt er um afkastagetu smábáta.

[12:15]

Áhyggjur mínar af þessari kvótasetningu eru í öðru lagi vegna þess að smábátaútgerð þarf að vera til staðar í íslenskum sjávarútvegi. Hún skapar atvinnu og smábátar draga að landi mikil verðmæti. Ég bendi sérstaklega á hversu mörg fyrirtæki í landi eru háð róðrum smábáta vegna svokallaðs flugfisks. Þar er væntanlega um að ræða það verð sem menn fá hvað hæst fyrir veiddan afla. En ég vil líka nefna hefðina, hina miklu hefð í atvinnulífi okkar og menningu fyrir því að stunda smábátaútgerð.

Ég óttast, herra forseti, að með kvótasetningunni þá muni fljótlega, ef skrefið verður stigið til fulls eins og örugglega er vilji margra, heyrast þær raddir að lítill munur sé á kerfum. Ég hef þegar heyrt það, meira að segja í röðum smábátamanna, að með fullri kvótasetningu á smábátum verði eðlilegt að smábátar fái að veiða með net. Því skyldu þeir ekki fá að veiða með net í stað þess að vera með hina dýru útgerð sem sumir telja, með línum, beitningu o.s.frv.?

Undan því mun verða látið. Næsta skref á eftir verður svo að menn spyrja: Hvers vegna erum við með tvö kerfi, smábátakerfi og stóra kerfið? Hver er munurinn? Þá munu menn auðvitað komast að þeirri niðurstöðu að munurinn er enginn orðinn og þá mun girðingin á milli kerfa hverfa. Í framhaldinu mun smábátaútgerð á Íslandi leggjast niður. Það óttast ég og þess vegna hef ég þær efasemdir sem ég hef lýst. Það er alvarlegt mál fyrir margar byggðir landsins og alvarlegt mál fyrir markaði og það er alvarlegt mál fyrir þjóðfélagið í heild sinni.

Ég vil taka það fram, herra forseti, að ég er ekki alveg sammála þeirri túlkun sem kynnt hefur verið á dómi Hæstaréttar um að kvótasetning sé eina leiðin. Vissulega hafa fimm virtir lögspekingar skrifað álit í þá átt en aðrir lögspekingar, margir þeirra afskaplega mikils metnir og virtir, hafa einmitt bent á þá túlkun sína að til séu aðrar leiðir til þess að takmarka og hemja afkastagetu smábáta. Þess vegna tel ég að útgangspunkturinn, álit hinna fimm lögspekinga sem leitað var til, sé ekki nægjanleg forsenda miðað við þá miklu hagsmuni sem í húfi eru.

Herra forseti. Margt þarf að skoða í þessu. Það á ekki einungis að líta á veiddan afla smábáta eða aflamarksbáta. Ég ítreka að það ber að vara við að stilla þessu upp sem andstæðum og tveimur ólíkum valkostum.

Í fyrsta lagi þarf vissulega að líta til fiskveiðiráðgjafar. Því miður hefur það komið fram á síðustu mánuðum að fiskveiðiráðgjöfin í heild sinni hefur beðið álitshnekki. Það ber auðvitað að harma.

Þá þarf líka að skoða í þessu samhengi, herra forseti, þá fullyrðingu sem hefur því miður allt of oft heyrst, Hafrannsóknastofnun hélt því lengi vel fram, að veiðarfærið gagnvart fiskstofnum í heild sinni skipti ekki máli. Nú geta menn spurt hvort sú fullyrðing sé rétt. Þá getum við líka svarað því með annarri spurningu: Hvers vegna segja Færeyingar annað? Í því fiskveiðistjórnarkerfi sem Færeyingar hafa tekið upp, svokölluðu dagakerfi, telja menn að veiðarfærið skipti máli. Þeir hafa svarað því með því að bæði botnvarpa og netaveiði eru nánast bannaðar innan færeyskrar landhelgi. Netaveiðar eru leyfðar í undantekningartilvikum en aðaláherslan er á línuveiðar og krókaveiðar. Hvers vegna? Svar Færeyinganna er mjög augljóst: Þeir telja að það skipti máli gagnvart meðferð afla og umgengni við nytjastofna og auðlindina í heild sinni. Þetta telja Færeyingar að skipti máli. Við hljótum því að spyrja: Skiptir það ekki máli hér?

Ég tel að við höfum verið nokkuð grandvaralaus gagnvart notkun botnvörpu, ekki síst á grunnslóð. Við hljótum að þurfa að leita svara við þeirri spurningu hver áhrif botnvörpu hafa verið á auðlind okkar Íslendinga á grunnslóð. Hvaða áhrif hefur botnvarpan þá haft á strandveiðiflotann? Allir þekkja hversu afkastageta, veiðarfæri og vélarafl á stærstu bornvörpuskipunum, hefur margfaldast og toghlerar og veiðibúnaður allur hefur margfaldast að stærð og afli. Það er líka þekkt meðal sjómanna, líklega einnig meðal þeirra fiskifræðinga sem um það hafa vélað, hvaða áhrif slík veiðarfæri hafa á kóralla. Menn hafa heyrt miklar fullyrðingar um það hvernig kórallar, kóraldrangar og botn hefur nánast verið sléttaður. Það er líka þekkt að fiskur, botnfiskur, leitar í slíka kóralla. Það er þekkt í kringum skipsflök þar sem fiskar safnast saman. Hvaða áhrif hefur það, ef fullyrðingin er rétt, að öflug veiðarfæri hafi sléttað heilu svæðin á hafsbotni? Hvaða langtímaáhrif hefur það á fiskigengd við landið? Þá hljótum við líka að spyrja: Verður aftur snúið?

Það hlýtur að vera skylda okkar að skoða hvort ekki þurfi að hefja einhverjar mótvægisaðgerðir eins og hefur verið reynt víða um heim með því að sökkva skipsflökum og setja jafnvel niður steyptar einingar sem mótvægisaðgerð við hina horfnu kóralla. Menn líta á það sem mótvægisaðgerðir til þess að ná aftur þeirri fiskigengd sem kann að hafa breyst verulega við að botn hafi verið sléttur.

Við hljótum líka, herra forseti, að spyrja okkur hvort okkur hafi tekist á síðustu öld að vernda fiskstofna okkar. Ef við lítum á tölur yfir landaðan þorskafla --- ég nefni þorsk sérstaklega vegna þess að hann skiptir miklu máli fyrir hagkerfi okkar og sjávarútveg --- á síðustu öld þá koma í ljós þrjár meginlægðir í lönduðum afla á þorski, þ.e. í kringum fyrri heimsstyrjöldina og síðari heimsstyrjöldina sem skiljanlegt er og síðan í kringum árið 1980. Þá var ekki heimsstyrjöld. Þá var ástand stofnsins með þeim hætti. Í kjölfar þess var gripið til þess að búa til nýtt fiskveiðistjórnarkerfi í bestu trú til þess að vernda fiskstofna og til þess að skapa hagræðingu í stöðugt vaxandi afkastagetu fiskiflotans.

En hvað hefur gerst síðan? Það hafa komið smærri toppar, enginn verulega stór toppur. En ef við lítum á þróunina --- og þá er ég bara að skoða landaðan afla --- þá stefnir aflinn í raun niður á við. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál sem við hljótum að velta upp í þessari eilífðarumræðu um sjávarútveg.

Þá hljótum við, herra forseti, einnig að skoða samspil fiskstofna. Hvert er samhengið á milli vaxtar og viðgangs í einstökum fiskstofnum og hvaða áhrif hefur einn fiskstofn á aðra? Við eigum á að skipa afskaplega færum sérfræðingum hjá Hafrannsóknastofnun, sérfræðingum í einstökum tegundum. Hins vegar hefur áherslan á rannsóknir á samspili þessara einstöku tegunda hverrar við aðra verið afskaplega takmörkuð. Menn hafa þó velt því upp hvort stöðug ásókn á loðnuveiði hafi ekki áhrif á aðrar fisktegundir, sérstaklega nefni ég þar botnfiska, þorsk, ýsu og ufsa. Ég nefni þó sérstaklega þorskinn af því að hann er nú gjarnan hér til umræðu.

Vissulega hafa verðmæti af veiddri loðnu bjargað þjóðarbúinu okkar mikið til skamms tíma. En hvaða áhrif hefur stöðugt vaxandi veiði úr loðnustofninum á aðra stofna? Hvaða áhrif hefur slík veiði, t.d. á þorskstofninn? Þetta er atriði sem við hljótum að skoða og við hljótum að þurfa að leggja meiri áherslu á hið vistfræðilega mat, á samspil náttúrunnar í heild sinni, þ.e. áhrif lífríkisins í hafinu og einstakra fiskstofna á aðra stofna. Við hljótum að þurfa að skoða það, draga ályktanir af því og móta fiskveiðistefnu með þeim hætti.

Þá er það líka ljóst, herra forseti, og er alkunna meðal sjómanna og fiskifræðinga að það eru náttúrulegar sveiflur. Þær eru og munu alltaf verða einfaldlega vegna þess að náttúran er síbreytileg. Þá komum við að því grundvallaratriði að spyrja, þegar toppar koma í mælingum á fiskstofnum, hvort þá sé ekki skynsamlegt að auka veiðina til þess að nýta fiskinn þegar hann gefst vegna þess að það er allsendis óvíst að hann geymist í hafinu. Hvað verður um þessa toppa hér á grunnslóð okkar þegar skilyrði eru með þeim hætti? Þegar skilyrði breytast, syndir þá fiskurinn einfaldlega ekki á aðrar slóðir? Getur þá ekki verið skynsamlegt, einmitt út frá efnahagslegum sjónarmiðum, að nýta toppana þegar þeir eru til staðar?

Ég fullyrði, herra forseti, að smábátar skipta ekki höfuðmáli hvað varðar vöxt og viðgang fiskstofna. Ég ítreka að smábátar skipta verulegu máli fyrir mörg byggðarlög, en ekki síður fyrir mörg fyrirtæki sem eru að vinna fisk, t.d. í flug, og fá hæsta verð sem hugsast getur fyrir slíkan fisk.

Niðurstaðan af þessum vangaveltum um fiskveiðiráðgjöf er í raun sú að náttúrulegar sveiflur eru til staðar. Við vitum allt of lítið um samspil einstakra tegunda, vöxt og viðgang stofnsins. Eins hafa áhrif veiðarfæra á fiskstofna verið mjög vanmetin.

Nú geta menn spurt, og sú fullyrðing heyrist mjög oft, hvort smábátar valdi ofveiði stofna. Ég sagði hér fyrr að ég teldi að svo væri ekki. En það er líka rangt að einblína eingöngu á þann afla sem smábátar draga að landi. Ég vil draga fram, sem ég hef gert áður, tölur úr öðrum flokkum útgerðar. Brottkast í fiskveiðistjórnarkerfinu er áætlað á bilinu 10--100.000 tonn. Það fer eftir því hver um það fjallar. En þær tölur hafa heyrst. Það er veiddur afli sem ekki skilar sér á land og ekki telst með í heildarmatinu. Ég nefni líka nýtingarstuðla frystitogara sem margir telja að séu vanmetnir. Sumir jafnvel ganga svo langt að segja nýting þeirra sé ekki nema 25% þegar saman eru teknir nýtingarstuðlar og brottkast. Náttúrulegar sveiflur eru miklar. Út frá þessu er beinlínis rangt að segja að smábátar séu það útgerðarform sem ógni fiskstofnum hafsins.

Ég vil vara við kollsteypum í sjávarútvegi eins og öðrum atvinnugreinum. Hins vegar hljótum við alltaf að skoða nýja möguleika og ég tel að núna hafi í fyrsta sinn, a.m.k. í áratugi, komið inn í umræðuna heildstætt nýtt kerfi. Þá er ég að vitna í hið færeyska kerfi. Það hlýtur að vera skylda okkar að skoða það kerfi. Þær fréttir sem berast frá Færeyjum eru nánast allar á þann veg að þar ríki almenn ánægja með það fiskveiðistjórnarkerfið sem Færeyingar tóku upp. Þetta hljótum við að taka til skoðunar því þar er um að ræða heildstætt kerfi sem hefur verið reynt hjá frændum okkar og nágrönnum.

Hins vegar er rétt að vara við því sem stundum hefur heyrst í umræðunni, að hið svokallaða færeyska kerfi feli í sér algjört frjálsræði. Það er alls ekki svo. Þar er mönnum úthlutað dögum eftir flokkum fiskiskipa og eftir ströngu og tiltölulega flóknu kerfi. Þó er eitt víst, þ.e. að brottkast er ekki vandamál í færeyska fiskveiðistjórnarkerfinu.

[12:30]

Herra forseti. Ég lýsi efasemdum um kvótasetningu á smábáta með þeim rökum sem ég hef hér nefnt. Ég tel þó, eins og pólitísk staða er hér innan þingsins, að frv. sem hér til umfjöllunar sé þó skásti leikurinn í stöðunni, það sé skásti leikurinn í stöðunni vegna þess einfaldlega að ég tel að ekki sé pólitískur vilji innan Alþingis, ekki meirihlutavilji, fyrir því að fara gegn kvótasetningu. (Gripið fram í.)

Hins vegar vil ég nefna ákveðna jákvæða þætti sem ég sé í frv., þ.e. að tekið sé á vanda þakbátanna þar sem þeim er gefinn kostur á að velja sig yfir í dagakerfið. Ég fagna þeim leiðum sem farnar eru í fyrsta sinn kannski þar sem reynt er að taka á brottkastinu með því að menn komi með 5% af afla utan kvóta og eins að smælkið vegi í rauninni ekki nema 50%. Ég fagna pottunum, fyrst og fremst sem byggðaaðgerð. Það er málefni sem við þurfum að taka upp í sjútvn. hvernig eigi að útdeila þessum pottum, en ég legg áherslu á að með þessu á ekki og þarf ekki að taka frá aflamarksbátum.

Eitt grundvallaratriði vantar þó inn í og það tel ég að þurfi að ræða verulega í sjútvn. og það er hið svokallaða gólf á dagabátana.

Við munum ástandið hér 1995 þegar Alþingi var í umsátursástandi, þegar banndagakerfið var komið að fótum fram og mönnum var ætlað að lifa af sjö eða átta dögum. Að óbreyttu mun sama þróun eiga sér staða, þ.e. að dögum mun fækka hægt og rólega þar til þessi staða verður komin upp aftur. Við því megum við ekki. Ég tel að ég hafi reynt að draga fram rök fyrir því. Þetta tel ég vera eitt grundvallaratriðið sem hæstv. sjútvn. þarf að fara yfir í þeim störfum sem fram undan eru.

Herra forseti. Ég tel að það séu spennandi tímar fram undan í hv. sjútvn.